139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[14:49]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka þetta mál upp á þingi. Það er mikilvægt vegna þess að við erum að tala um heildarskipan heilbrigðisþjónustunnar, hvernig við viljum byggja hana upp og hvernig hún á að vera. Við höfum lög um heilbrigðisþjónustu sem segja til um það að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðisþjónustu en svo hefur ekki verið hjá öllum.

Við erum líka í mikilli efnahagskreppu og því er ekki síður mikilvægt að horfa á skipan heilbrigðisþjónustunnar þannig að við veitum þjónustu á réttu þjónustustigi. Eins og ég sagði á heilsugæslan að vera fyrsti viðkomustaðurinn og heilsugæslan er sú þjónusta sem getur haldið utan um sjúkrasögu og meðferðarúrræði hvers einstaks aðila sem til hennar leitar. Þannig getur meðferðin verið markviss og samræmd.

Sérgreinaþjónustan er annars stigs þjónusta, hvort heldur sem hún er veitt af sjálfstætt starfandi sérfræðingum eða á almennum sjúkrahúsum. Þriðja stigs þjónustan og sú dýrasta er sú sem er veitt á háskólasjúkrahúsunum eða sérgreinasjúkrahúsunum. Þangað á fólk ekki að leita nema bráðveikt með tilvísun ef upp koma alvarlegir sjúkdómar eða slys. Við þekkjum það að í þjónustu Landspítalans er allt of mikið um að fólk leiti í þessa dýrustu þjónustu, fólk sem ætti að leita annað.

Það kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra að núna er verið að fara yfir þessi mál. Það er verið að skoða hvaða tilvísanakerfi á að taka upp svo þjónustan sé veitt á réttu þjónustustigi, því að það á að gera. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hraða þeirri vinnu sem er fram undan þegar nefndin skilar af sér. Það þarf að liggja ljóst fyrir um áramótin (Forseti hringir.) hvaða tilvísanakerfi við tökum upp og að heilsugæslan verði efld á næstu árum með tilliti til þess.