139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[14:54]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum endurskipulagningu á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði og þakka ég málshefjanda umræðuna. Staðan virðist orðin þannig á höfuðborgarsvæðinu að fólk kýs gjarnan að fara beint til sérfræðings á tilteknu sviði læknavísinda í stað þess að leita fyrst til heilsugæslunnar í sínu hverfi eða bæ og fá grunngreiningu á meinum sínum. Ástæður fyrir þessu eru örugglega margvíslegar. Ég ímynda mér að a.m.k. hluti skýringarinnar sé fáir starfandi heimilis- og heilsugæslulæknar og þar með löng bið eftir tíma hjá lækni.

Það hlýtur að vera eðlilegt að byrja á að fá grunngreiningu á meinum sínum áður en leitað er eftir afmarkaðri sérfræðiþjónustu. Það er líka ódýrara fyrir alla aðila og við hljótum öll að leggja á það áherslu á erfiðum tímum að nýta fjármagn allra aðila sem allra best. Það hlýtur því að vera hið ákjósanlega form að heilsugæslan sé nýtt fyrst og sem allra best áður en dýr sérfræðiþjónusta er nýtt.

Lífsreynsla mín sem er fædd og uppalin á þessu horni landsins með heimilislækna fjölskyldunnar og sérfræðinga þegar þess þótti þörf skilaði minni fjölskyldu nokkuð áfallalítið í gegnum bernsku og æsku. Síðan eru fullorðinsárin sem foreldri ungra barna úti á landi þar sem heilsugæslan var eini möguleikinn ef einhver var lasinn, veikur, meiddur eða stórslasaður og skilaði mér og mínum líka vel í gegnum þann aldarfjórðung sem ég bjó með fjölskyldu minni í eins mikilli fjarlægð frá höfuðborginni og komast má.

Ég skynja síðan allt annan veruleika í nýju lífi mínu í höfuðborginni þar sem nú verður sjálfsagt að leita til sérfræðinga og sólarhringsvakta hvort sem einhver verður aðeins lasinn eða mikið veikur. Mér finnst þessi þróun sérstök og þykist viss um að hún sé dýrari en sú sem ég hef rætt um áður. Það ætti því að vera eðlilegt að snúa ofan af þessari þróun í rólegheitum með þeim ráðum sem tiltæk eru án þess að farið verði í róttæka forræðishyggju. Eins og svo víða annars staðar má læra þarna af því hvernig hinar dreifðu byggðir sníða sér ódýran stakk eftir vexti.