139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[15:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka bara þau tilmæli okkar til hæstv. forseta að gengið verði eftir því að hæstv. fjármálaráðherra svari þessum spurningum undanbragðalaust. Það liggur fyrir eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á að þetta er ekki mjög flókið ef menn hafa reiknivélina og kunna margföldunartöfluna. Þess vegna ætti hæstv. fjármálaráðherra ekki að verða skotaskuld úr því að svara þessu þannig að einhver bragur sé á.

Það er ekki hægt að umgangast þingið með þessum hætti. Þessi mál hafa hvað eftir annað verið tekin upp í þingsölum. Það er óþolandi fyrir okkur þingmenn að þurfa að ganga þann veg til að kalla eftir sjálfsögðum svörum við spurningum sem hv. þingmenn bera upp. Þessi mál hafa líka verið rædd á fundum með hæstv. forseta og þingflokksformönnum. Það er ljóst að í öllum flokkum ríkir gríðarleg óánægja með það hvernig þingið er meðhöndlað af einstökum hæstv. ráðherrum. Ég ítreka það að hæstv. forseti sjái til þess að hæstv. fjármálaráðherra taki sér nú reiknistokkinn í hönd og klári útreikningana á þessu máli þannig að einhver sómi sé að, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra er nú að kynna (Forseti hringir.) hér með óljósum hætti einhverja niðurstöðu í Icesave-málinu sem við vitum ekki hvernig á að vera.