139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[15:14]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til að skora á yfirstjórn þingsins að hún taki sér nú tak og ræði þessi mál mjög alvarlega við hæstvirta ráðherra í ríkisstjórninni vegna þess að aftur og aftur þurfum við þingmenn að koma hingað og kvarta yfir því að hæstv. ráðherrar svari ekki þeim spurningum sem við beinum til þeirra. Þingið getur ekki veitt hæstv. ríkisstjórn það aðhald sem því er ætlað að veita nema þinginu berist svör við þeim spurningum sem hv. þingmenn bera fram. Og það dæmi sem hér hefur verið nefnt, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vakti máls á, er grafalvarlegt. Það varðar gríðarlega þjóðarhagsmuni og á meðan hæstv. ráðherrar eru að snúa út úr spurningum okkar þingmanna eða koma ekki fram með þær upplýsingar sem við þurfum að fá í slíkum málum, eins og Icesave-málinu, er fundað úti um allan (Forseti hringir.) bæ til þess að upplýsa hagsmunaaðila utan þings um það hvernig viðræður í Icesave-málinu (Forseti hringir.) ganga. Ég skora á yfirstjórn þingsins að ræða þessi mál í eitt skipti fyrir öll við hæstvirta ráðherra.