139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[15:30]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi svar við fyrri spurningunni er það auðvitað ekki þannig að dómur áfrýjunardómstóls í Frakklandi sé ráðgefandi fyrir íslensk stjórnvöld með sama hætti og dómur EFTA-dómstólsins. Hins vegar felur hann auðvitað í sér túlkun á því með hvaða hætti íslensk stjórnvöld leiða í lög tilskipun og þar af leiðandi horfir dómstóllinn til þess hvort réttarverndin sem gjaldþrotaferlið á að veita viðkomandi þrotabúi er með fullnægjandi hætti eða ekki. Það er til að bregðast við þeim aðstæðum sem þetta frumvarp er lagt fram, þ.e. það er hætta á því að réttarverndin sem þrotabúið ætti að búa við í gjaldþrotaferlinu sé ekki fyrir hendi og þess vegna geti þrotabúið sætt kyrrsetningu með öðrum aðgerðum af hendi kröfuhafa sem geta spillt fyrir eignum búsins.

Auðvitað er það valkostur að gera ekki neitt og taka þá áhættuna af því að bíða eftir mögulegri áfrýjun þessa dóms og það er ferli sem mundi taka einhver ár. Það mundi fela í sér áhættu, það mundi fela í sér óvissu og jafnframt óvissu um það hvað tæki við eftir 24. nóvember og 6. desember þegar greiðslustöðvunartími rennur út.

Að því er varðar seinni spurningu hv. þingmanns er það svo að hér eru hagsmunir allra bankanna þriggja undir þó að á þetta hafi reynt sérstaklega í tilviki Landsbankans. Allir bankarnir eiga eignir vítt og breitt í Evrópu og þetta snýr ekki einungis að endurheimtum varðandi útibúin eða slíku heldur einfaldlega eignum sem þeir eiga í og eru með varnarþing í viðkomandi löndum. Þeir eiga eignir sem eru auðvitað kröfur á hendur fyrirtækjum sem geta verið með heimilisfesti hvar sem er í Evrópu og þar af leiðandi er þetta alvarlegt vandamál fyrir þá alla.