139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[15:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni á að íslensku bankarnir höfðu heimilisfesti hér á landi og þar sem kveðið er sérstaklega á um í tilskipuninni að þetta snerti bara útibú en ekki dótturfélög bar ég fram þessa spurningu. Mér finnst ég ekki hafa fengið nægilegt svar við henni vegna þess að þarna eru allir bankarnir sagðir eiga undir mikla hagsmuni.

Ég minni á að Alþingi verður að vanda lagasetningu og fara varlega þegar sett eru svona skyndilög. Því til rökstuðnings vísa ég t.d. til þess valdaafsals sem fólst í þeim lögum sem Alþingi setti í miklum flýti um það að íslenska ríkið eða framkvæmdaaðilar hefðu enga aðkomu sem dæmi að skilanefndum bankanna. Það var verið að fjalla um það í fjölmiðlum fyrir stuttu. Skilanefndirnar eru ríki í ríkinu.

Þá langar mig til að koma að annarri spurningu: Getur verið að þeir frönsku dómar sem ráðherrann vísaði í, sem ég sakna að hann hafi ekki reifað í framsöguræðu sinni því að framsögumaður frumvarps hefur rúman tíma í ræðustól og hefði verið ágætt ef hann sett fram rökin sem fram komu í þessum frönsku dómum til að heimfæra upp á íslenska lagasetningu, getur verið að rökstuðningurinn sé notaður vegna þess að nú eru að renna út þeir frestir sem bankarnir hafa í greiðslustöðvun og aðkoma dómstólanna verði að koma með þessum hætti inn svo þeir fari ekki sjálfkrafa í slitameðferð eftir að greiðslustöðvunin hefur runnið út, runnið sitt skeið á enda, eins og er að gerast í tilfelli bankanna?

Ég deili áhyggjum með hv. þm. Eygló Harðardóttur um að hér er um afturvirk lög að ræða eins og svo oft hefur komið fyrir þingið undanfarna mánuði.