139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[15:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 18, 201. mál. Um er að ræða frumvarp til laga um skeldýrarækt. Frumvarpið er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan samráðshóps um kræklingarækt sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði 26. nóvember 2008 á grundvelli tillagna í skýrslu nefndar á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stöðu og möguleika kræklingaræktar á Íslandi sem birt var 2. júní 2008. Þar var gerð tillaga um stofnun samráðshóps um uppbyggingu kræklingaræktar sem í ættu sæti fulltrúar kræklingaræktenda og opinberra stofnana. Hlutverk samráðshópsins var að samþætta starf ríkisstofnana og koma með tillögur til ráðherra um fyrirhuguð ræktunarsvæði sem fara í heilnæmiskönnun og mat á tíðni eitraðra svifþörunga. Frumvarp þetta var áður flutt á 138. löggjafarþingi Alþingis 2009–2010, þá sem 522. mál á þskj. 911, en varð ekki útrætt á því þingi. Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hefur verið farið yfir umsagnir sem bárust um frumvarpið til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins. Við gerð frumvarpsins sem hér er lagt fram hefur verið reynt að taka tillit til þeirra athugasemda eins og unnt hefur verið.

Engin lög eru til um þessa atvinnugrein og eru þetta drög að fyrstu lögum um það efni. Talið hefur verið að um skeldýrarækt gildi ákvæði laga um fiskeldi. Í framkvæmd hefur hins vegar komið í ljós að ákvæði laganna eiga ekki að öllu leyti við um skeldýrarækt, t.d. kræklingarækt. Gera þarf a.m.k. nokkrar breytingar á lögunum til þess að þau geti gilt um skeldýrarækt eða kræklingarækt og bætt við þau sérstökum ákvæðum sem víkja nokkuð frá ákvæðum laganna. Einnig er eftirlit með starfsemi á sviði skeldýraræktar, einkum kræklingaræktar, aðallega eftirlit með heilnæmi og hollustuháttum, bæði Matvælaeftirlitsins sem fer eftir lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um það efni og er með nokkuð öðrum hætti en lög um fiskeldi. Ekki er gert ráð fyrir að önnur stofnun annist framkvæmd laganna, þ.e. Matvælastofnun, en Fiskistofa annast framkvæmd og eftirlit með starfsemi á sviði fiskeldis.

Við gerð frumvarpsins hefur verið rætt hvort setja eigi ný lög um skeldýrarækt eða gera breytingar á lögum um fiskeldi eða fiskrækt til þess að þau geti einnig gilt um þá atvinnugrein. Með vísan til framangreindra sjónarmiða var talið rétt að setja sérstök lög um atvinnugreinina. Eftirlit með starfsemi á sviði skeldýraræktar, einkum kræklingaræktar, er eins og áður segir aðallega eftirlit með heilnæmi og hollustuháttum. Það er Matvælaeftirlitið sem fer eftir lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli EES-gerða um það efni, samanber lög nr. 93/1995, um matvæli, samanber og lög nr. 143/2009, um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Matvælastofnun annist eftirlit með starfseminni með svipuðum hætti og gildir um eftirlit með annarri matvælaframleiðslu. Við gerð frumvarpsins hefur verið lögð til grundvallar sú efnisskipan að frumvarpið er í sjö köflum með eftirfarandi efni: Í I. kafla er fjallað um markmið laganna, gildissvið og skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem koma fram í frumvarpinu og stjórnvaldsfyrirmælum sem áformað er að setja ef frumvarpið verður að lögum. Í II. kafla er fjallað um hvernig stjórnsýsla, samkvæmt frumvarpinu, skuli vera en gert er ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum en að framkvæmd stjórnsýslunnar verði að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Þá er áfram gert ráð fyrir að Fiskistofa fari með eftirlit með veiðum skeldýra til áframhaldandi ræktunar, vigtun og skráningu sjávarafla í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem um það gilda á hverjum tíma. Einnig er í kaflanum sérstakt ákvæði um svæðaskiptingu, starfsemi til skeldýraræktar hér á landi, sem gert er ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé heimilt að framkvæma.

Þá er í kaflanum ákvæði um að ráðherra sé heimilt að takmarka eða banna skeldýrarækt eða ákveðnar aðferðir til slíkrar starfsemi í einstökum fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnkvæmt starfsemi sem fer fram samkvæmt lögum.

Í III. kafla er fjallað um leyfisveitingar og fleira. Þar er gert ráð fyrir að Matvælastofnun geti fyrst veitt tilraunaleyfi til starfsemi til þess að unnt verði að kanna hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu tilraunasvæði eða fyrirhugaðar tegundir, stofnar eða starfsaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræðilegum eða erfðafræðilegum áhrifum sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi.

Áður en gefið er út tilraunaleyfi skal leyfishafi eða umsækjandi láta framkvæma heilnæmiskönnun sem skal skipulögð og framkvæmd af Matvælastofnun. Meginreglan er sú að leyfishafi greiði kostnað af slíkri heilnæmiskönnun, en ráðherra geti þó ákveðið að hann skuli greiddur úr ríkissjóði ef fjárheimildir fást til þess á fjárlögum.

Þá er gert ráð fyrir að unnt sé að sækja um ræktunarleyfi sem veitt verða til sjö ára í senn. Hægt verður að sækja um ræktunarleyfi þótt tilraunaleyfi hafi ekki verið veitt. Í ákvæðinu er fjallað um ýmis atriði við gerð umsókna og leyfisveitingaferlið að öðru leyti.

Loks er þar ákvæði um að Matvælastofnun geti afturkallað tilraunaleyfi eða ræktunarleyfi ef ákveðin skilyrði eru fyrir hendi.

Í IV. kafla eru ákvæði um starfsemi skeldýraræktar, þ.e. mannvirki og búnað, merkingar, eftirlit og skýrslugjöf, lok starfsemi og framleiðslu og dreifingu skeldýra sem eru veidd eða ræktuð samkvæmt lögunum.

Í V. kafla eru ákvæði um gjaldskrá fyrir starfsemi sem fer samkvæmt lögunum. Gert er ráð fyrir að hún verði eins og unnt er samræmd gjaldskrá Matvælastofnunar samkvæmt 25. og 26. gr. matvælalaganna, nr. 93/1995, með síðari breytingum, samanber lög nr. 143/2009.

Í VI. kafla sem ber heitið „Ýmis ákvæði“ kemur fram að framsal, leiga og veðsetning á tilraunaleyfi og ræktunarleyfi til skeldýraræktar er óheimil samkvæmt lögunum.

Í VII. kafla kemur fram heimild ráðherra til að setja reglugerð eða reglugerðir um ýmis atriði varðandi framkvæmd laganna. Einnig er þar viðurlagaákvæði við brotum á lögunum svo og ákvæði um að lögin taki gildi 1. janúar 2011.

Þá er í ákvæðum framangreindra kafla gert ráð fyrir að ýmsar stofnanir og aðilar verði umsagnaraðilar um tilteknar ákvarðanir samkvæmt frumvarpinu og einnig við setningu stjórnvaldsfyrirmæla sem sett kunna að verða um ýmis framkvæmdaatriði samkvæmt frumvarpinu.

Virðulegi frú forseti. Skeldýrarækt er ný atvinnugrein sem hefur átt misjöfnu gengi að fagna á þeim tíma sem hún hefur starfað. Bundnar eru vonir við að atvinnugreinin geti eflt atvinnulíf og byggð í landinu og skilað þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum svo sem raun hefur orðið á með öðrum þjóðum. Með gildistöku laga þessara er ætlunin að stuðla eftir föngum að möguleikum til skeldýraræktar, m.a. kræklingaræktar og setja þeirri atvinnugrein skýrar reglur og umgjörð.

Þá vek ég aftur athygli á að hér er um að ræða fyrstu heildarlögin á Íslandi um skeldýrarækt.

Að lokum vil ég árétta að ákvæði frumvarpsins fela í sér miklar breytingar á inntaki og framkvæmd stjórnsýslu og eftirlits með skeldýrum, m.a. þar sem leyfisveitingar og eftirlit með skeldýrum og skeldýrarækt er með frumvarpinu flutt frá Fiskistofu til Matvælastofnunar. Einnig eru gerðar töluverðar breytingar á reglum um eftirlit til þess að þær geti gilt um þessa atvinnugrein, þ.e. skeldýrarækt.

Skeldýrarækt er ný atvinnugrein á tilraunastigi hér á landi. Nauðsynlegt eftirlit samkvæmt frumvarpinu tekur hins vegar mið af eftirliti í Evrópu á sviði skeldýraræktar. Þar hafa eftirlitsaðferðir þróast svo áratugum skiptir, enda er atvinnugreinin aldargömul í þeim löndum.

Í Evrópu eru gerðar verulegar kröfur um eftirlit með þessari starfsemi vegna þess að framleiðslan getur verið hættuleg til neyslu ef ekki er fylgt reglum um eftirlit. Hins vegar er ljóst að kostnaður við eftirlit með starfseminni verður óhjákvæmilega talsverður og leggst þannig að verulegu leyti á atvinnugreinina samkvæmt 15. gr. frumvarpsins.

Ég vil beina því til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að eftir að frumvarpinu hefur verið vísað til nefndarinnar, eins og ég legg til hér á eftir, láti hún fara fram athugun á því hver sé heildarframleiðsla skelfisks hér á landi. Í framhaldi af því mælist ég einnig til þess að nefndin kanni hvort unnt sé að setja ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið sem gildi tímabundið þar sem gert verði ráð fyrir því að kostnaður af eftirlitinu, t.d. fyrstu þrjú árin, greiðist að hluta úr ríkissjóði.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu. Þar er fjallað ítarlega um gerð þess og gert grein fyrir efni þess.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.