139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[15:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur hæstv. ráðherra og hv. þm. Helga Hjörvars um sameiningu ráðuneyta. Þær eru svo sem kunnar, það er svo margt annað sem stjórnarflokkarnir deila um.

Ég ætla þó að segja í upphafi máls míns að ég fagna þessu frumvarpi. Ég tel mikilvægt að sett sé heildarlöggjöf um kræklingarækt. Það er ekki á hverjum degi sem ég fagna því þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur fram frumvörp því að við erum yfirleitt ekki sömu skoðunar þegar hann leggur þau fram. Ég ætla því að njóta augnabliksins.

En það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í. Annars vegar væri gott ef hann vildi útskýra fyrir mér nánar það sem er í 8. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Leyfishafi greiðir kostnað við heilnæmiskönnun en heimilt er ráðherra að ákveða að hann skuli greiddur úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti ef fjárheimildir fást til þess í fjárlögum.“

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra aðeins betur hvers vegna þetta er þarna.

Hins vegar langar mig að nefna við hæstv. ráðherra að nú þarf að greiða fyrir heilnæmiskönnun á vegum Matvælastofnunar. Maður hefur heyrt frá mörgum sem eru í kræklingarækt að þeir kvarta yfir þeim mikla kostnaði sem því fylgir. Það kemur reyndar fram á öðrum stað í skýringum að fyrir eftirlit með lögunum skuli leyfisgjafar greiða gjald sem sé ekki hærra en raunkostnaður. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur ráðuneytið skoðað það sérstaklega hvað varðar Matvælastofnun?

Þá er kannski þriðja spurningin: Telur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki ástæðu til að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari sérstaklega yfir þetta í umfjöllun sinni um málið í nefndinni?