139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[15:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð enda eru mörg mál sem tengja okkur þó að vissulega séu önnur sem við eigum ekki samleið í. Þannig er það nú bara.

Varðandi þessa heilnæmiskönnun þá hefur hingað til aðeins verið greitt fyrir hana en nú koma margir aðilar sem vilja spreyta sig á þessu og þess vegna þykir rétt að hafa þetta í lögunum. Það viðhorf sem sett er fram er að þetta sé sérgrein í þróun, eins konar nýsköpunargrein. Hún á sér ekki langan feril eins og t.d. í mörgum samkeppnislöndum okkar þannig að ýmislegt, hvort sem það eru rannsóknir, kannanir eða eftirlit varðandi grein á þróunarstigi, gæti orðið hluti af þeim stuðningi sem henni verður veittur. Að svo mæltu verður veitt til þess fé á fjárlögum eða í gegnum þróunarsjóð eða annað því um líkt sem hið opinbera gæti með beinum eða óbeinum hætti verið aðili að. Leggja verður áherslu á að á þessu þróunarstigi megi huga að því og er það lagt til, en til þess þarf náttúrlega að vera fjármagn.

Menn bentu á háan eftirlitskostnað, það er alveg rétt. Eini kostnaðaraukinn sem kom inn var með setningu nýju matvælalaganna þar sem gerðar eru þær kröfur að ef við flytjum út skeldýr, t.d. á Evrópumarkað, þá uppfylli þær ekki aðeins kröfur sem settar eru um heilnæmi heldur líka um eftirlit. Það er áhyggjuefni (Forseti hringir.) en engu að síður sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.