139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[16:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og get alveg tekið undir að það er mjög eðlilegt að þessi grein njóti ákveðinna styrkja eins og aðrar nýsköpunargreinar, hvort sem er í þessu formi eða einhverju öðru. Ég tel að þessi hái kostnaður sé í raun og veru það sem þekkist í dag þegar menn byrja í greininni og er sérstaklega kvartað undan honum.

Ég ítreka spurninguna til hæstv. ráðherra um hvort hann telji ekki ástæðu til að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd eða ráðuneytið sjálft fari sérstaklega yfir þetta til að vita hvort sá raunkostnaður sem Matvælastofnun á sannarlega að rukka fyrir í meðferð leyfisveitinganna sé til staðar. Þó að ég sé ekki að halda neinu fram í þessu einstaka tilfelli þá þekkjum við svo mörg dæmi um að eftirlitsstofnanir búi sér bara til tekjur eftir þörf. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að menn fari yfir þetta og ítreka ég því spurninguna til hæstv. ráðherra um hvort hann sé ekki sammála mér um að annaðhvort fari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd yfir þetta eða ráðuneytið, sérstaklega, til að hafa alla vega slíkt aðhald.

Ég fagna þessu frumvarpi og vil að lokum segja að miklar væntingar og vonir eru bundnar til þessarar ungu atvinnugreinar því að ekki veitir okkur af tekjum til að koma þjóðarbúinu af stað aftur.