139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[16:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að maður veit aldrei hvað gerist í þinginu. Ég hafði orð á því fyrr í dag að furðu rólegt yfirbragð væri búið að vera síðustu vikur. Það er lítið búið að gerast hér í þinginu. Þó að mörg mál hafi vissulega verið skoðuð hjá framkvæmdarvaldinu og í alls kyns samráðshópum hefur lítið af frumvörpum ríkisstjórnar skilað sér inn. Með fullri virðingu fyrir frumvarpinu sem við ræðum, og ég kem inn á á eftir, hafði ég orð á því að umræðan í þinginu væri ekki svo merkileg.

Síðan gerist það að íhaldið og vinstri grænir falla í faðma yfir einkaframtakinu, (Gripið fram í.) einstaklingsframtakinu, sem er rétt frammíkall hjá hæstv. ráðherra. Hér kristallast enn og aftur ágreiningur milli stjórnarflokkanna um samstarfssamninginn sem þeir settu á laggirnar í upphafi um fækkun ráðuneyta o.fl. Ég get fullvissað hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra um að ég mun styðja sjónarmið hans í því efni frekar en sjónarmiðin sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom með í umræðuna.

Það má með sanni segja að það sé vissara að fylgjast með af fullri athygli því maður veit aldrei hvað gerist næst.

Við ræðum hér frumvarp til laga um skeldýrarækt. Við ræddum það líka sl. vor. Ég get sagt það sama núna og ég sagði þá, það hefur komið fram bæði í ágætri framsögu hæstv. ráðherra sem og í orðum hv. þingmanna sem hafa talað að hér er um jákvætt frumvarp að ræða, að það er mikilvægt að skapa þessari nýju atvinnugrein lagaramma sem hún geti stuðst við. Það hefur háð greininni hvernig hún hefur þurft að feta fram og þeim aðilum sem langar til að hefja kræklingarækt eða skeldýrarækt en hafa ekki vitað við hverja þeir eiga að að ræða, hvar þeir eiga að fá leyfi og hverjir eigi að veita þeim leyfi.

Hér er um nýja útflutningsatvinnugrein að ræða, grein sem byggist á nýtingu auðlinda. Þetta er eitt af þeim verkum sem við eigum að einhenda okkur í og þess vegna held ég að það sé ánægjulegt að það skuli vera mikill samhljómur meðal þingheims, bæði stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðuþingmanna.

Ef við förum í sjálft frumvarpið þá gagnrýndi ég það, m.a. þegar það var lagt fram í vor að skipulagshlutinn væri vanreifaður. Satt best að segja þá var einungis fjallað um ríkisstofnanir og aðkomu þeirra á vorþinginu en hvergi minnst á sveitarfélög eða stofnanir sveitarfélaga sem þar koma að máli. Þó voru það fyrst og fremst sveitarfélög og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna sem voru að baksa með að leyfa eldi og rækt sem þó var í gangi ef einhverjir spurðu.

Á þessu hefur verið gerð nokkur bragarbót. Ég tel það engan veginn vera nægilegt. Það er á einum, tveimur ef ekki þremur stöðum fjallað um að sveitarfélögin muni jafnframt koma að málinu ásamt öllum ríkisstofnunum sem hér hafa verið taldar upp sem umsagnaraðilar. Það kemur líka fram að settur er sérstakur rammi, ég held að það sé í greinargerðinni frekar en í frumvarpinu sjálfu að þar er talað um að umsagnaraðilarnir skuli hafa tvær vikur til þess að skila umsögn sinni.

Ef við hefðum viðhaft sama tímaramma þegar við fjölluðum um skipulagslögin þá held ég að það hefði orðið ramakvein í umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun sem taka í það minnsta mánuð og stundum lengri tíma til að fara yfir mál. Þarna vantar samræmi í hlutina. Ég ætla að koma inn á þá samræmingu.

Við fjölluðum talsvert um það í sumar og haust, þegar við fjölluðum um afleiðingar, hvernig þingið ætti að bregðast við rannsóknarskýrslu Alþingis. Að það væri skortur á að ráðuneytin kæmu með sambærilegum hætti að málum. Það væri ekki samræmt hvernig þau tækju við skilaboðum eða leystu úr þeim. Það skorti verulega á samræmingu stjórnsýslunnar, hvernig leyst væri úr ákveðnum stjórnsýslumálum. Einnig vantar samræmingu í gerð lagafrumvarpa. Þá komum við inn á nauðsyn þess að hér í þinginu sé lagaskrifstofa og meira frumkvæði í lagasetningunni sé á hendi þingsins en ekki ráðuneytanna.

Mig langar að benda á að í 3. gr. frumvarpsins sem hér er lagt fram, er fjallað um skilgreiningar. Í 4. lið er fjallað um mannvirki. Ég benti á það í ræðu minni í vor að það væri hróplegt ósamræmi á milli skilgreininga á orðinu „mannvirki“ í frumvarpinu. Þar sem stendur einfaldlega, með leyfi forseta:

„Hvers konar byggingar og búnaður sem er notaður við ræktun skeldýra.“

Það er mannvirki samkvæmt þessu frumvarpi. Í frumvarpi til laga um mannvirki aftur á móti er orðið mannvirki, það er reyndar líka í 3. gr. frumvarpsins, skilgreint með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Hvers konar jarðfastar, manngerðar framkvæmdir, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautabúnaður til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.“

Þarna hefði verið eðlilegra að það væri sama skilgreining á orðinu „mannvirki“. Einnig hefði verið til bóta fyrir frumvarpið að í 3. gr. hefði orðið „skipulag“ verið skilgreint. Seinna í frumvarpinu er fjallað um orðið „skipulag“. Þar er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilt, ef vistfræðileg og hagræn rök mæla með því, að ákveða samkvæmt þessum lögum skipulag og skiptingu ræktunarsvæða. Samkvæmt þessu á hæstv. ráðherra að fara með skipulag — nema þarna sé annar skilningur á orðinu skipulag og ekki sé verið að vísa til skipulags eins og það kemur fyrir í skipulagslögum.

Þetta er mjög bagalegt vegna þess að kannski er einfaldasta lausnin á vandamálinu sú að ef skipulag sveitarfélagsins liggur fyrir og búið er að fara í gegnum ferlin sem allir umsagnaraðilarnir sem taldir eru upp í 4. gr. og 5. gr. frumvarpsins væru búnir að fjalla um málið og það lægi fyrir að þarna mætti fara fram kræklingarækt eða önnur skeldýrarækt, þá væri ekki þörf á öllum þessum umsagnaraðilum enda væri þá búið að vinna málið í skipulagi sveitarfélagsins. Eins og fram kom hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þá ræddum við þetta í vor. Það komu nokkrar athugasemdir sem mér finnst ráðuneytið ekki hafa brugðist við með fullnægjandi hætti.

Hérna stendur líka út af hvort um þessar leyfisskyldu framkvæmdir, sem Matvælastofnun mun veita leyfi til eftir að hafa fengið allar umsagnir, gilda lög um umhverfismat. Til að mynda hvort stærri framkvæmdir eða stærri ræktunarbú eða -fyrirtæki þurfa að fara í umhverfismat síður en önnur sem minni eru. Það er ósamræmi hér á milli. Ég nefndi það í ræðu minni í vor að það væri nauðsynlegt að fá umsögn umhverfisnefndar varðandi skipulags- og umhverfisþátt þessa hluta. Við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd verðum að velta því fyrir okkur hvort við óskum eftir því.

Það hefur komið fram í frumvarpinu, sem er skýrara en frumvarpið sem lagt var fram í vor, að Matvælastofnun mun fara með leyfisveitingarnar og málið en ekki Fiskistofa. Það er út af fyrir sig ekkert að því að ákvörðun ráðuneytisins sé að færa allt matvælaeftirlit til Matvælastofnunar eins og gert var í matvælalögunum á grundvelli Evrópusambandstilskipana. Engu að síður eru það heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna sem hafa eftirlit með mengunarvörnum og þar af leiðandi eftirlit með fráveitu sveitarfélaga. Vatnið sem þar liggur næst kemur auðvitað við sjávarströndina.

Sveitarfélögin og heilbrigðisnefndirnar hafa einnig fengið þann beiska kaleik frá þinginu að flokka allt vatn, þar á meðal strandsjó. Þetta er samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það eru ýmislegar kvaðirnar sem á okkur eru lagðar á grundvelli vafasamra forsendna, svo ekki sé meira sagt. Til dæmis má spyrja: Til hvers erum við flokka allt vatn? Það hafa komið sérfræðingar til landsins og orðið undrandi hversu margar tegundir af vatnsflokkum séu í landinu. Það er alveg með ólíkindum að hægt sé að búa til slík fræði um jafneinfalda hluti og vatn.

Það er gríðarlega mikið verkefni að flokka allt vatn á Íslandi. Það mun kosta mikla fjármuni og þegar það er búið verður minni þörf á heilnæmiskönnun í hvert sinn. En til hvers að flokka allt vatn á Íslandi ef við ætlum síðan ekki að nota það til eins né neins? Þessi flokkun vatns byggist á því að innan Evrópusambandsins liggja lönd hvert að öðru og vatnið flæðir á milli landamæra. Þess vegna þurfa menn að flokka þar vatn. Það er bannað að setja fráveitur í vatn þar sem það getur mengað annars staðar. Við höfum séð það í hræðilegum umhverfisslysum. Skemmst er að minnast slyssins sem varð nýlega í Ungverjalandi.

Heilt yfir er það jákvætt að kominn sé fram lagabálkur. Það er hins vegar neikvætt, að mínu viti, að ekki skuli hafa verið tekið meira tillit til athugasemdanna sem komu fram í vor. Það mun þýða að vinna okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd mun taka lengri tíma og verða umfangsmeiri en ef málið hefði verið betur undirbúið. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að við fáum að leita umsagnar umhverfisnefndar á þeim hluta málsins er varðar umhverfismálin annars vegar og hins vegar skipulagshlutann. Það verður hins vegar nauðsynlegt fyrir okkur að drífa þetta af. Það er mikill kraftur í þeim sem hafa hug á að fara út í þessa atvinnugrein. Ég tek undir að það er mikilvægt að hvetja einstaklingsframtakið. Það er líka mikilvægt þegar nýjar atvinnugreinar fara af stað að þær fái opinberan stuðning. Auðvitað er umdeilanlegt hvort það sé með þeim hætti að það standi eins og maður sér stundum að ráðherra einn geti ákveðið hvort fyrirtæki eða aðilar fái fellt niður gjald vegna heilnæmisskoðunar, að ekki verði settar neinar reglur í kringum það. En það er hægt að gera það með reglugerð seinna meir.