139. löggjafarþing — 28. fundur,  16. nóv. 2010.

Afbrigði um dagskrármál.

[18:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Birki J. Jónssyni um að það er enginn bragur á því af hálfu stjórnarflokkanna að leggja fram mál sem á að klára sem lög frá Alþingi samdægurs og láta það síðan gerast hér að stjórnarandstaðan þurfi að tryggja því þau nauðsynlegu afbrigði samkvæmt þingsköpum sem þarf til að málið geti orðið að lögum — og láta það gerast að menn þurfi að bíða í 15–20 mínútur eftir að atkvæðagreiðsla fari fram eftir að stjórnarþingmenn tínist í húsið. Þetta má ekki henda stjórnarflokkana ef þeir vilja ná málum sínum í gegn en við ætlum að horfa í gegnum fingur okkar með það í þetta skiptið.

Ég geri þá ráð fyrir að hljóðið breytist í strokknum hjá ríkisstjórnarflokkunum þegar þeir saka stjórnarandstöðuna um að vilja ekkert samráð eða samstöðu um mikilvæg mál sem þurfa að fara hér í gegn. (Gripið fram í.)