139. löggjafarþing — 28. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[18:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Mér dettur nú í hug orðatiltækið „sjaldan launar kálfurinn ofeldið“ þegar ég hlusta á viðbrögð hv. þingmanna ríkisstjórnarflokkanna við því að við sem erum hluti af stjórnarandstöðunni viljum greiða fyrir málum. Þegar við gerðum athugasemdir við hversu fáir stjórnarliðar væru í salnum til að veita málinu afbrigði kallaði einn hv. þingmaður fram í fyrir mér og kvartaði yfir því að við vildum ekki styðja málið. Síðan þegar hv. formaður viðskiptanefndar þakkar fyrir góð nefndarstörf sér hún ástæðu til að hnýta í okkur af öðrum ástæðum. (Gripið fram í.) Ég furða mig satt besta að segja, í ljósi stöðunnar í þinginu varðandi þetta mikilvæga mál, að svona sé brugðist við. En gott og vel, það breytir því ekki að við munum ekki bregða fæti fyrir málið, eins og komið hefur fram, enda er það talið mikilvægt.

Hins vegar er auðvitað svo að það er ekki góður bragur á því við lagasetningu að frumvörp séu lögð fram síðdegis og kláruð sama kvöld. Ég tala nú ekki um þegar verið er að fjalla um frumvörp til laga sem varða samspil gjaldþrotaskiptalaga okkar Íslendinga, Frakka og Evrópusambandsins. Margt má segja um ýmsa lagabálka en gjaldþrotaskiptalögin íslensku og gjaldþrotaskiptalög annarra landa eru kannski ekki þau lög sem eru mýkst undir tönn. Þessu verður að halda til haga en hitt er annað mál að færð hafa verið rök fyrir því hér, m.a. af hálfu hæstv. ráðherra, hvers vegna ganga þarf svona hratt frá málum. Það er alveg rétt að í ljósi þeirra aðstæðna sem upp eru komnar þarf að bregðast hratt við. En það eru engu að síður ekki góðir lagasetningarhættir.

Eins og fram kemur í gögnum málsins, bæði í frumvarpinu og nefndarálitinu sem hér hefur verið mælt fyrir, eru hér gerðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem hafa það að markmiði að tryggja jafnræði kröfuhafa og að eignir fjármálafyrirtækja í slitum njóti verndar eftir að greiðslustöðvun lýkur. Það er gert með tvenns konar breytingum. Annars vegar breytingu á 4. mgr. 103. gr. laganna og tekin af öll tvímæli um að allar reglur kafla um riftun ráðstafana þrotamanns og fleira, þ.e. að ákvæði XX. kafla gjaldþrotaskiptalaga eigi við um þau tilvik sem kveðið er á um í 103. gr. gjaldþrotaskiptalaganna. Hins vegar með breytingu sem mér sýnist, eftir að hafa farið yfir málið, vera mjög mikilvæg en það er breyting á V. bráðabirgðaákvæðinu. Hún felur í sér að fjármálafyrirtæki sem falla undir sérreglu ákvæðisins verða með dómsúrskurði tekin til slitameðferðar sem um gilda almennar reglur í stað þess að það gerist sjálfkrafa þegar heimild til greiðslustöðvunar hefur runnið sitt skeið á enda. Nú eru þær heimildir að renna sitt skeið á enda í tilviki Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.

Franski dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að innleiðing tilskipunar Evrópusambandsins að þessu leyti hefði ekki verið nægilega vönduð. Það dugði dómstólnum ekki að slíkt gerðist sjálfkrafa heldur taldi hann við lögskýringu að til þyrfti að koma dómsúrskurður frá íslenskum dómstólum til að slík slitameðferð færi fram samkvæmt almennum reglum. Sú niðurstaða leiðir til þess að eignir bankanna þriggja, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis, kunna að vera í hættu ef ekki verður gripið til þeirra breytinga sem frumvarpið mælir fyrir um, þ.e. að til komi dómsúrskurður í stað þess að ferlið haldi sjálfkrafa áfram eins og núverandi lög kveða á um.

Eins og áður segir er tilefnið dómur í máli Landsbankans og kröfuhafa í Frakklandi sem féll þann 4. nóvember síðastliðinn. Áður hafði dómur fallið í sama máli fyrir fullnustudómstóli í Frakklandi. Á báðum dómstigum var ekki fallist á málsástæður Landsbanka Íslands um að almennar reglur gjaldþrotaskiptalaganna ættu við og að tilskipunin hefði verið innleidd með þeim hætti sem talið var og leiddi síðan til þeirrar stöðu sem nú er komin upp. Þetta álitaefni var rætt í nefndinni. Við veltum fyrir okkur hvaða áhrif sú ákvörðun Alþingis að breyta lögum um fjármálafyrirtæki hefði á réttarstöðu frönsku aðilanna sem höfðuðu kyrrsetningarmál gegn Landsbankanum og hugsanlega annarra kröfuhafa gagnvart íslenska ríkinu vegna íhlutunarinnar sem felst í lagasetningunni.

Það er ekkert launungarmál að með því að breyta lögum í miðjum leik, ef svo má segja, af því að ákveðið hefur verið að áfrýja máli Landsbankans til hæstaréttar Frakklands, er öðrum þræði reynt að styrkja stöðu Landsbankans gagnvart þeim aðilum sem hann á í ágreiningi við fyrir frönsku dómstólunum. Við höfðum töluverðar áhyggjur af því að íhlutunin gæti hugsanlega leitt til myndunar skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu. Af hálfu fulltrúa í skilanefndum og slitastjórnum allra bankanna var talið að svo væri ekki. Vonandi er mat þeirra rétt. Það er hins vegar ekki fullvíst að sú verði niðurstaðan. Vegna þessarar hættu getum við m.a. ekki stutt frumvarpið, einnig vegna þess að þetta tiltekna atriði hefur ekki fengið gagngera skoðun í þinginu.

Hitt er annað mál að breytingin hefur gríðarlega þýðingu varðandi prinsippið um að vernda bankanna fyrir ásælni annarra kröfuhafa í eignir þeirra. Það er auðvitað það sem máli skiptir, að reyna að halda í prinsippið um að hagsmunir glatist ekki. Gríðarlegir hagsmunir eru þar í húfi, miklu meiri en mál Landsbankans í Frakklandi snýst um.

Við skulum vona að þessi breyting á lögunum um fjármálafyrirtæki verði til góðs og hafi ekki í för með sér neina eftirmála. Þeir sem bera málið fram verða auðvitað að bera ábyrgð á tillögugerð sinni. Eins og hér hefur komið fram munum við ekki styðja frumvarpið en við munum heldur ekki greiða atkvæði gegn því. Við munum sitja hjá og lýsum fullri ábyrgð á málinu á hendur ríkisstjórnarflokkanna. Það er eðlilegt, í fyrsta lagi ekki síst í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi eru en ekki síður vegna málsmeðferðarinnar sem viðhöfð hefur verið. Hraðaskriftin á afgreiðslu málsins er slík að veruleg hætta er, í þessu tilviki eins og öðrum þegar slík vinnubrögð eru viðhöfð, á að mistök verði gerð við lagasetningu sem síðar hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum að í umræðunni. Ég þakka formanni viðskiptanefndar, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, kærlega fyrir samstarfið í nefndinni sem var ágætt, ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.