139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni, með síðari breytingum og um brottfall laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, vegna stofnunar nýs embættis landlæknis og lýðheilsu.

Með frumvarpinu er lagt til að Lýðheilsustöð og landlæknisembættið verði sameinuð í eitt embætti, embætti landlæknis og lýðheilsu, sem ætlað er að vinna að eflingu lýðheilsu og tryggja gæði í heilbrigðisþjónustu. Meginmarkmið sameiningarinnar er að starfrækja eitt öflugt embætti á sviði lýðheilsu- og heilbrigðismála, en að hluta til hefur verið nokkur skörun í starfsemi landlæknis og Lýðheilsustöðvar á sviði lýðheilsu og heilsuverndar.

Hlutverk nýs embættis verður víðfeðmt enda er gert ráð fyrir að embættið sinni nær öllum verkefnum sem landlæknisembættið og Lýðheilsustöð hafa sinnt til þessa lögum samkvæmt. Hér má nefna leyfisveitingar, sóttvarnir, ráðgjöf, eftirlit með heilbrigðisþjónustu, upplýsingasöfnun, gæðamál og skýrslugerð. Auk þess mun embættið sinna verkefnum á sviðum forvarna, heilsueflingar og lýðheilsu.

Embætti landlæknis og lýðheilsu er ætlað að standa vörð um heilbrigði og velferð þjóðarinnar. Það felst m.a. í því að efla vitund og þekkingu um margvíslega áhrifaþætti á heilbrigði og vellíðan þegnanna. Eins og áður segir er embættinu ætlað að styrkja og efla lýðheilsustarf m.a. með ráðgjöf til stjórnvalda og almennings um aðgerðir til að viðhalda og bæta heilbrigði þjóðarinnar eða tilgreindra hópa í þjóðfélaginu með skipulegum og viðurkenndum aðferðum. Heilbrigði og velferð þjóðar byggist að verulegu leyti á þeirri umgjörð sem stjórnvöld hverju sinni búa þegnum sínum og umhverfi er sterkur áhrifavaldur á heilbrigði og vellíðan þegnanna allt æviskeiðið.

Því er mikilvægt fyrir stjórnvöld að hafa sér til ráðgjafar embætti þar sem þessi mál eru stöðugt í umræðu sem byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Deigla samræðna stjórnvalda, fagfólks og almennings um heilbrigði og vellíðan skapar þannig forsendur fyrir stjórnvöld til ákvarðanatöku sem byggist á bestu þekkingu á hverjum tíma.

Ég er þess fullviss að með sameiningu landlæknis og Lýðheilsustöðvar mun það starf sem þessar stofnanir sinna í dag eflast og styrkjast. Hlutverk Lýðheilsustöðvar og landlæknisembættisins falla vel saman og samlegðaráhrif sameiningar eru margvísleg. Landlæknir hefur frá öndverðu sinnt ráðgjöf til stjórnvalda og tekið þátt í uppbyggingu öflugrar heilbrigðisþjónustu hér á landi, m.a. með eftirliti með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Málefni sem snerta lýðheilsu landsmanna og heilsuvernd þróuðust með tímanum og urðu jafnframt drjúgur þáttur í starfi embættisins.

Við stofnun Lýðheilsustöðvar árið 2003 fluttust ýmis verkefni tengd lýðheilsu sem sinnt hafði verið á vegum embættis landlæknis til hinnar nýju stofnunar. Í dag veita báðar stofnanirnar stjórnvöldum og almenningi ráðgjöf um heilbrigðismál, gefa út leiðbeiningar um vinnulag og framkvæmd verkefna og sinna rannsóknum. Því er raunsætt að sameina þær og skapa þannig tækifæri til að styrkja og efla starf þeirra enn frekar.

Það er ljóst að við hinu nýja embætti blasa margvísleg verkefni sem snerta velferð landsmanna frá vöggu til grafar. Lýðheilsustarf nýrrar stofnunar mun felast í fjölbreyttum verkefnum sem snerta m.a. hreyfingu, mataræði og vaxandi offitu landsmanna, slysavarnir, tannvernd, geðvernd, sóttvarnir, kynheilbrigði, uppeldi og þroska barna, varnir gegn margs konar birtingarmyndum ofbeldis og forvarnastarf gegn notkun áfengis, tóbaks og annarra vímuefna. Sérstaklega þarf að huga að aðstæðum verðandi mæðra, barna og ungmenna, atvinnulausra, öryrkja og aldraðra og tryggja jöfnuð þegnanna. Embættið mun jafnframt standa vörð um gæði heilbrigðisþjónustunnar á öllum stigum hennar, þ.e. í forvarnastarfi, hjá heilsugæslu og hjá heilbrigðisstofnunum. Samhliða því mun embættið einnig bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna og hafa umsjón með gagnasöfnum á landsvísu um heilbrigðisþjónustuna og heilbrigði landsmanna.

Þá má gera ráð fyrir að sameining þessara stofnana í eitt öflugt embætti leiði til hagræðingar til langs tíma litið. Með sameiningunni skapast tækifæri til að auka hagkvæmni í rekstri, draga úr yfirbyggingu og samnýta mannafla betur en hingað til, sérstaklega í verkefnum sem snúa að forvörnum.

Í því sambandi er rétt að benda á að í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að sameiningin hafi ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð til frambúðar og að sameinuð stofnun verði betur í stakk búin að mæta þeim aðhaldsmarkmiðum sem henni eru sett í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir þeirri meginbreytingu sem felst í frumvarpi þessu. Ég mun nú gera grein fyrir nokkrum öðrum breytingum sem frumvarpið felur í sér, en þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að dánarmeinaskrá flytjist frá Hagstofu Íslands til hins nýja embættis landlæknis og lýðheilsu.

Í öðru lagi er lögð til sú breyting að umsýsla og eftirlit með lækningatækjum verði flutt frá landlæknisembættinu til Lyfjastofnunar.

Í þriðja lagi er lagt til að skrá um sykursýki bætist við þær heilbrigðisskrár sem landlæknir skipuleggur samkvæmt gildandi lögum um landlækni

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að starfrækja innan embættis landlæknis og lýðheilsu fagráð á einstökum sviðum lýðheilsumála.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að starfrækt verði lýðheilsusjóður. Samkvæmt núgildandi ákvæðum laga um gjald af áfengi og tóbaki rennur 1% af áfengisgjaldi til Forvarnasjóðs og skal áfengis- og vímuvarnaráð gera tillögur um úthlutun úr honum til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna.

Með sama hætti er bundið í 7. gr. laga um Lýðheilsustöð og 15. gr. laga um tóbaksvarnir að 0,9% af brúttósölu tóbaks sem rennur til Lýðheilsustöðvar skuli varið til forvarna á sviði tóbaksvarna að fengnum tillögum tóbaksvarnaráðs.

Hér er gert ráð fyrir að áfengisgjald og fyrrgreint gjald af brúttósölu tóbaks renni til lýðheilsusjóðs og að hlutverk hans verði að styrkja lýðheilsustarf sem samræmist markmiðum frumvarpsins, bæði innan og utan embættisins, en verði ekki bundið við forvarnir annars vegar á sviði áfengis- og vímuvarna og hins vegar á sviði tóbaksvarna eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.

Tekið skal fram að fjármálaráðuneytið hefur gert athugasemdir við að þessir sjóðir séu sérmerktir, þ.e. að sérstakt gjald renni í ákveðinn sjóð og er gerð athugasemd við að 1% áfengisgjald það sem ríkissjóður innheimti eigi að renna áfram í lýðheilsusjóð, áður Forvarnasjóð. Fjármálaráðuneytið telur að tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna eigi að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna eigi að vera tekin í fjárlögum hverju sinni.

Í öðru lagi er gerð athugasemd við að veita beri fjárframlag sem svarar til 0,9% brúttósölu tóbaks árlega í lýðheilsusjóð.

Í þriðja lagi er bent á að með frumvarpinu falli niður ákvæði um sjálfstætt ráð sem gerir tillögur um úthlutanir úr sjóðnum og raunar að embættinu sjálfu er ætlað að ráðstafa fé úr sjóðnum í samráði við ráðherra, jafnvel til eigin starfsemi.

Ég vek athygli á þessum athugasemdum vegna þess að ég tel rétt að í nefndarstarfinu verði farið betur yfir þennan þátt og skoðað hvernig fara skuli með gjaldstofna og ráðstöfun tekna og útgjalda í frumvarpinu.

Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og tel mikilvægt að frumvarpið verði að lögum á haustþingi þannig að nýtt embætti landlæknis og lýðheilsu geti tekið til starfa 1. janúar 2011.

Leyfi ég mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.