139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi fjárhagslegu hagræðinguna felur það í sér almenna athugasemd um að stærri stofnun geti spilað á fleiri útgjaldaþætti. Ég held að sé rétt að hafa í huga að ef við skoðum hvernig árangur hefur náðst í heilbrigðiskerfinu á undanförnu ári, á þessu ári og raunar líka á því síðasta ári, sem hv. þingmanni er mjög vel kunnugt um, kemur í ljós að menn hafa verið innan fjárlaga. Menn hafa undanfarið verið að aðlaga sig að þeim fjárveitingum sem þeir fá og ég hef enga ástæðu til að efast um að það takist ekki þarna líka. Þarna er eingöngu vakin athygli á því að það sé auðveldara fyrir stærri stofnun og þar má nýta sér starfsmannaveltu án þess að rýra þjónustuna sem stofnuninni er ætlað að veita.

Varðandi húsnæðismálin var gert útboð á húsnæðinu á vegum Framkvæmdasýslunnar. Enn þá er verið að vinna í að fara í það húsnæði. Mér er ekki kunnugt um að það eigi að stækka neitt umfram það sem áætlað hafði verið í upphafi. Það hafa verið uppi álitamál um hvort eftirlitsþættir undir félags- og trygginga- og heilbrigðisráðuneytinu fari undir landlækni og lýðheilsu. Það var ákveðið að bíða með það, en það gæti átt mjög vel saman. Þá þarf auðvitað að gera ráð fyrir rými fyrir það. Því yrði þá breytt á næsta ári.