139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um gjaldtökuna. Við höfum verið sammála um það í fjárlaganefnd að alla jafna eigi að leggja af markaða tekjustofna heldur eigi að leggja þá inn til ríkissjóðs og fjárheimildir séu þá ákveðnar á fjárlögum. Það er einmitt athugasemdin sem kom frá fjármálaráðuneytinu og ég óska eftir að það verði tekið til umræðu í þingnefnd og hafði lofað fjármálaráðuneytinu að það kæmi fram því að það skiptir dálitlu máli.

Ég ætla ekki að gerast sérfræðingur í húsnæðismálunum því að það er fyrst og fremst Framkvæmdasýslan sem hefur kostnaðarmetið og unnið með það. Aftur á móti endurspeglast í fyrirspurninni eða athugasemdinni þessi vandræðagangur sem er á okkur víða varðandi leigusamninga, þeir eru mjög langir og það eru engin uppsagnarákvæði eða endurskoðunarákvæði. Nú þekki ég ekki nákvæmlega þennan leigusamning en við höfum séð þetta víða og það þekkir hv. þingmaður jafn vel og ég úr vinnu í fjárlaganefnd. Hagræðingarmöguleikar og það að færa starfsemi í sama hús skiptir oft mjög miklu máli upp á nýtingu starfsfólks og til að nýta samlegðaráhrifin af sameiningunni en þetta hefur víða valdið vandræðum.

Ég treysti á að þetta verði skoðað í meðförum þingsins því að ekki er búið að ganga frá leigusamningum í sambandi við þetta hús. Þó að það sé í ákveðnum farvegi þá hefur þingið síðasta orðið hvað það varðar.