139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla í ræðu á eftir að fara betur yfir málið í heild sinni en ég tek undir það með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það kemur mjög á óvart að heilbrigðisráðuneytið hafi lagt sérstaklega til að tekið sé tilboð sem er 41% hærra en lægsta tilboðið í húsnæðið. Það þýðir kannski lítið að ræða um þennan samning landlæknis sem á 17 ár eftir af leigutímanum, er í mjög dýrri í leigu og augljóslega verður um tap að ræða þar. Það er sérstakt rannsóknarefni að átta sig á því af hverju leigusamningar á húsnæði sem ríkisstofnanir eru í eru til svo langs tíma.

Þetta á sér langan aðdraganda, það eru tvö ár frá hruni, þá flýttu menn allri vinnu sem þessari og þetta var í ákveðnum farvegi áður, ég þekki það vel — ég furða mig á því sem kemur fram, með leyfi forseta:

„Ekki hefur þó verið unnin sérstök úttekt á fjárhagslegum samlegðaráhrifum stofnananna tveggja eða rekstraráætlun gerð fyrir sameinaða stofnun á vegum heilbrigðisráðuneytisins.“

Virðulegi forseti. Af hverju hefur það ekki verið gert? Eftir allan þennan tíma, af hverju í ósköpunum er ekki búið að gera úttekt á þessu? Þegar ég skildi við þetta mál — ég fer nánar í það á eftir — voru menn að skoða það, vegna þess að menn vildu ná samlegðaráhrifum og var búið að skrifa frumvarp um það og búið að senda það til umsagnar, þá var gert ráð fyrir því að Lyfjastofnun og lyfjagreiðslunefnd yrði sameinuð eftirlitsþætti landlæknis. Nú eru menn eitthvað að ýja að því að hugsanlegt væri að setja einhverjar eftirlitsstofnanir félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem er allt meira tal frekar en eitthvað annað. En þetta er eitthvað sem liggur alveg beint fyrir. Og af hverju í ósköpunum hafa menn þetta ekki inni í frumvarpinu? (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það eru þessar spurningar: Af hverju ekki fjárhagslega úttekt? Af hverju ekki Lyfjastofnun og lyfjagreiðslunefnd?