139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra tveggja spurninga og mér fannst ég ekki fá svör við þeim. Ég spurði annars vegar: Af hverju var ekki gerð sérstök fjárhagsleg úttekt? Það hefur verið nægur tími til þess. Nú er ætlast til að við klárum þetta. Nú er 16. nóvember. Ég veit ekki hve margir þingdagar eru eftir. Ef eitthvað er að marka, og ég bið hæstv. ráðherra að eyða samt ekki löngum tíma í það, það sem stendur hér frá fjármálaráðuneytinu þá segja þeir að heilbrigðisráðuneytið hafi farið fram á að tekið yrði tilboði sem er 41% hærra í leigusamningi. Ég spurði hins vegar ekki út í það, við getum rætt það á eftir. Ég vil bara fá að vita: Af hverju er ekki búið að gera sérstaka fjárhagslega úttekt eftir allan þennan tíma?

Ég spyr ekki út í hugmyndir í félags- og tryggingamálaráðuneyti, stofnanir þar, heldur af hverju ekki sé gert ráð fyrir því að starfsemi Lyfjastofnunar og lyfjagreiðslunefndar sé undir hér eins og lagt var upp með á sínum tíma þegar menn skrifuðu frumvarp um tvær stofnanir. Eftirlitsstofnunin átti meira að segja að taka eftirlitsþátt þeirra stofnana sem þarna um ræddi og sömuleiðis forvarnaþáttinn. Ekki er nokkur einasti vafi á að mikil tækifæri eru til staðar þegar kemur að lyfjahlutanum. Það er ekki eins og menn hafi verið að koma að þessu í gær og það er ekki eins og menn hafi ekki vitað allan þennan tíma hvert stefndi.

Virðulegi forseti. Ef hæstv. ráðherra vildi vera svo vænn og svara tveimur spurningum: Af hverju var ekki gerð fjárhagsleg úttekt og stendur til að gera hana? Af hverju eru Lyfjastofnun og lyfjagreiðslunefnd ekki þarna inni?