139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[20:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum sameiningu landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar. Ég ætla ekki að hætta mér út í eða ræða sérstaklega um faglega þáttinn vegna þess að hér hafa talað á undan mér tveir fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherrar og formaður hv. heilbrigðisnefndar.

Ég vil hins vegar gera dálítið að umtalsefni undirbúninginn að þessu máli, fyrst þær fullyrðingar að sameiningin muni auka fjárhagslega hagkvæmni í rekstri, draga úr yfirbyggingu, leiða til betri nýtingar mannafla og þar fram eftir götunum. Ég bendi sérstaklega á að ekki hefur verið unnin sérstök úttekt á fjárhagslegum samlegðaráhrifum stofnananna eða rekstraráætlun gerð fyrir sameiginlega stofnun á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þess vegna finnst mér mjög varhugaverðar þær fullyrðingar að þessi hagræðing muni nást út af sameiningu þessara tveggja stofnana, sérstaklega í ljósi sögunnar. Við höfum fjallað um skýrslur frá Ríkisendurskoðun og mig langar að rifja upp að ein þeirra er um að áform um sparnað vegna sameiningar stofnana hafi ekki gengið eftir vegna ónægs undirbúnings. Þá skýrslu erum við búin að fjalla um hér en samt sem áður höldum við áfram á sömu braut og það finnst mér algjörlega óásættanlegt. Við höfum ekki grunninn sem við þurfum að hafa til að taka efnislega afstöðu til málsins þegar þessi vinna hefur ekki farið fram. Nú hefur staðið til í mjög langan tíma að sameina þessar tvær stofnanir og þá finnst mér mjög vítavert að við skulum ekki hafa þessar úttektir á sameiginlegum fjárhagslegum samlegðaráhrifum stofnananna. Það undirstrikar enn og aftur að mínu viti að við erum ekkert búin að læra af því sem alltaf er verið að benda okkur á, að vanda okkur betur í undirbúningnum.

Síðan langar mig að gera aðeins húsnæðiskostnaðinn að umtalsefni. Ég tek undir það sem sumir hv. þingmenn hafa sagt hér og geri engar athugasemdir við það sem fjármálaráðuneytið skrifar inn í þetta frumvarp vegna þess að mér finnst það alveg til umhugsunar hvernig staðið er að þessu. Það kemur í fyrsta lagi fram að kostnaður við flutning á stofnununum sé um 30 millj. kr. Það eru, virðulegi forseti, u.þ.b. 5% af heildarframlögum stofnananna árið 2011, þ.e. við byrjum á því að miða við 5%. Þó að það eigi að ganga á ónýttar fjárheimildir kostar þetta eigi að síður 30 millj. kr. og það hefur væntanlega ekki verið reiknað út frekar en hitt hver grunnurinn er þegar menn gefa sér þær forsendur að það muni kosta einungis 30 millj. kr. að færa stofnunina. Mér finnst þetta verulega hár kostnaður, þ.e. að 5% af heildarframlögum til stofnunar skuli þurfa að fara í að flytja hana. Því til viðbótar, miðað við það sem kemur fram í markmiðunum um hvað þetta þýðir, er niðurstaðan í raun og veru sú að stofnunin muni þó geta haldið sig innan þeirra niðurskurðartillagna sem er gert ráð fyrir að stofnanirnar þurfi að taka á sig á næsta ári, um 9%. Hagræðingin af sameiningunni fyrsta árið er að þessar tvær stofnanir geti þó haldið sig innan þeirra fjárlaga sem gert er ráð fyrir að þær eigi að geta samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Ég velti því fyrir mér hvort það sé þá með þeim hætti að ef stofnanirnar væru ekki sameinaðar og þá yrði engin hagræðing af því, a.m.k. ekki á fyrsta árinu, væri það ekki innan fjárlaga. Eigi að síður þurfum við að ganga á 30 millj. kr. framlag sem þær eiga í ónýttar fjárveitingar.

Virðulegi forseti. Síðan eru þessi húsnæðismál algjörlega einn stór kapítuli út af fyrir sig og ég get ekki látið undir höfuð leggjast að nefna það hér því að mér finnst þetta alveg hreint með ólíkindum. Á sama tíma sitjum við í hv. fjárlaganefnd með mjög mikil vandamál í niðurskurði, eins og allir vita sem hér sitja, þeim hörmungum sem fylgja og erfiðu ákvörðunum. Það verður ekkert skorast undan því að taka þær en þá skulu starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins vera með hugmyndir um að fara í útboð um útleigu á húsnæði. Það er álitið að 1.600 fermetra húsnæði þurfi og Framkvæmdasýslan fer í að bjóða það út, síðan kemur tilboð sem þýðir að það muni kosta 29 millj. kr. á ári að leigja þetta húsnæði sem er áætlað að dugi fyrir þessa stofnun sameinaða. Þá skulu samt vera uppi áform um það í heilbrigðisráðuneytinu að taka annað húsnæði þó að það hafi einhverja sögu, þ.e. Heilsuverndarstöðina við Barónsstíginn, sem er töluvert stærra en gert er ráð fyrir að þurfi með töluvert hærri leigu sem þýðir í stuttu máli að það er 41% hærra en tilboðið sem Framkvæmdasýslan mælti með. Ég bara spyr enn og aftur: Eru þessir tímar ekki liðnir, sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem við erum í núna? Menn geta haldið því fram að þetta hús hafi einhverja sögu en þá vil ég bara minna á það, virðulegi forseti, að við erum nú þegar hugsanlega að fara að loka einhverjum heilsugæslustöðvum eða hluta af spítölum sem eiga líka sína sögu. Það verður ekki bæði sleppt og haldið og ég verð að segja að mér finnst þetta bara bruðl. Ef þörf er fyrir 1.600 fermetra húsnæði á að fara að leigja 1.800 eða 1.850 fermetra hús sem er töluvert dýrara í leigu. Að menn skuli leyfa sér að hugsa svona á þessum tímum finnst mér alveg ótrúlegt. En ég þykist vita að hv. heilbrigðisnefnd muni fara mjög vel yfir þetta mál þannig að við lendum ekki í þessari vitleysu, að mínu viti.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði áðan og fannst það mjög gott. Hæstv. ráðherra sagði að ekki yrði gengið frá leigunni á húsnæðinu fyrr en búið væri að afgreiða málið frá þinginu. Það róaði mig dálítið, virðulegi forseti, vegna þess að við þekkjum dæmi um annað. Núna erum við að fara að afgreiða fjáraukalög og ég vonast til að Alþingi felli út tillögu sem þar er inni um að kaupa sendiherrabústað fyrir tæpan milljarð króna. Ég fagna sérstaklega því að hæstv. ráðherra skuli hafa komið þessu á framfæri. Síðan er eitt sem ég reikna fastlega með og trúi ekki öðru, að sá samningur sem verður gerður þegar húsnæðið verður tekið á leigu undir nýja stofnun verði ekki gerður með þeim aðferðum sem koma fram í þessu frumvarpi. Hann verður að vera uppsegjanlegur þannig að menn séu ekki bundnir af honum í tugi ára.

Það er annað sem veldur mér áhyggjum. Nú er landlæknisembættið með leigusamning við einkaaðila og það eru 17 ár eftir af þeim samningi, 17 ár sem á eftir að borga leigu. Síðan er alveg ljóst, það er a.m.k. alveg klárt í mínum huga, að leigumarkaðurinn er mjög erfiður og það er ekki sem það sé mikil eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. Þó að það tækist að endurleigja kemur mjög skýrt fram í frumvarpinu að þá yrði það á töluvert lægri leigu en landlæknisembættið greiðir núna.

Síðan kemur líka fram í þessu frumvarpi frá fjármálaráðuneytinu að þegar búið er að sameina stofnunina og ef embættið situr uppi með fyrrverandi samning til 17 ára — það situr klárlega uppi með hann, en hvort sem það getur endurleigt húsnæðið eða ekki er lágmarkið að reikna með að 2%, að lágmarki, af rekstrarfé nýrrar stofnunar fari í að borga upp þennan gamla leigusamning. Þetta er alveg hreint með ólíkindum, virðulegi forseti. Það er eitt sem menn þurfa að taka til rækilegrar endurskoðunar, það eru búin að vera allt of mikil lausatök á þessu í gegnum tíðina, menn leigja hér alls konar glerhallir og glæsihýsi á uppsprengdu verði með svona ákvæðum. Það er kominn tími til að stoppa það.

Mig langar aðeins að gera hér að umtalsefni í lok ræðu minnar það sem menn gera athugasemdir við, svokallaðar sértekjur sem koma inn í sjóðinn. Ég tek heils hugar undir það. Mér finnst það mjög slæmt þó að menn marki tekjustofnana til viðkomandi stofnana eftir ákveðnum formum og eins eiga lögbundin framlög að fara í forvarnamál og þar fram eftir götunum. Einn helsti galli í fjársýslustjórnun ríkisins með framkvæmd fjárlaga er að þessar sértekjur og margar markaðar tekjur fara beint inn í stofnanirnar. Á ákveðnum tímapunkti bólgna stofnanirnar síðan út vegna þess að sértekjurnar aukast mikið og svo þegar yfirleitt þarf að draga saman seglin gengur það ekki eftir. Það gerir það líka að verkum að Alþingi hefur ekki nógu mikla yfirsýn yfir rekstur stofnananna. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi setji hverri stofnun alveg skýr markmið, hvað hún á að hafa út úr sértekjum í reksturinn burt séð frá því að menn lendi í einhverjum sveiflum, hvort sem þær eru upp eða niður. En því miður sýnir reynslan, og við höfum mörg dæmi um það, að þegar niðursveiflan kemur á sértekjunum er ekki sjálfgefið að dragi úr vexti stofnananna. Síðan taka sumar stofnanir að sér ákveðin verkefni með því að skapa sér enn þá frekari sértekjur til að geta látið stofnanirnar bólgna út og það kemur í bakið á ríkissjóði.

Sumar stofnanir sem hafa sértekjur, og þær eru nokkrar þó að ég sé ekki að tala um þessar stofnanir hérna, eru núna á þessum erfiðu niðurskurðartímum að bólgna út. Þær hafa sértekjur langt umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og fjáraukalögum. Og það eru dæmi um að á meðan við skerum niður velferðarþjónustuna, spítalana, eldri borgarana og öryrkjana, bólgna jafnvel út sumar stofnanir sem áttu að fá á sig skerðingar. Ein stofnun hefur bólgnað út um 15,4% á þessum niðurskurðartímum, akkúrat út af þessu sem fjármálaráðuneytið er að vara við. Það eru ekki þessar stofnanir svo ég ítreki það til að það fari ekki á milli mála en það eru sumar stofnanir og það eru dæmi um það að á meðan Alþingi og ríkisstjórn taka mjög erfiðar ákvarðanir um að skera niður á mjög viðkvæmum stöðum bólgna sumar stofnanir út á sama tíma og eru með 15,4% umfram það sem var gert ráð fyrir bæði í fjáraukalögum og fjárlögum á árinu 2009. Þetta er algjörlega óásættanlegt. Þessu verður að breyta og ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði hér, að hann óskaði eftir því að hv. heilbrigðisnefnd skoðaði þetta sérstaklega í umfjöllun um málið. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Eins og hann kom inn á í andsvari við mig áðan störfuðum við töluvert saman í fjárlaganefnd áður en hann varð ráðherra og við vorum svo sem algjörlega sammála um þessa hluti þar. Þessu verður að breyta en að öðru leyti, virðulegi forseti, mun ég fylgjast með því hvernig þetta þróast. Ég treysti að sjálfsögðu á það góða fólk sem starfar í hv. heilbrigðisnefnd.