139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[20:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað um þessa breytingu á lögum um Lýðheilsustöð og embætti landlæknis. Það hefur ýmislegt komið fram, það hafa verið gerðar ýmsar athugasemdir sem hv. heilbrigðisnefnd mun fjalla um. Meðal annars var í tengslum við umræðuna bent á að ný stofnun hefur auðvitað heilmikil verkefni fram undan. Heilsustefna sem var lögð fram á sínum tíma komst til tals og er mikilvægt að henni fylgt verði eftir. Ég hef áður í andsvari og viðræðum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson vakið athygli á því að þeirri heilsustefnu hefur ekki verið hent út af borðinu í heilbrigðisráðuneytinu heldur fer hún í skoðun. Ég get líka vakið athygli hv. þingmanns á því að sumir þættir hennar hafa verið í framkvæmd og við höfum fylgt henni eftir, m.a.s. eftir að ég kom til starfa, sem eru heilsuátökin í framhaldsskólunum og HOFF-verkefnið. Þar er verið að gera gríðarlega spennandi hluti varðandi forvarnir og heilsu framhaldsskólanema.

Bent hefur verið á að það geti verið einhver áhætta í því að eftirlit með forvarnastarfi sem á að fara fram hjá þessari stofnun geti stangast að einhverju leyti á við framkvæmdahlutverk hennar. Það er auðvitað ástæða til að vekja athygli á því að það gildir almennt um eftirlit að það þurfi að vera skýrir múrar á milli þannig að ekki vinni sömu aðilar í framkvæmdinni og eftirlitinu. Meðal annars þess vegna nefndi ég fyrr í ræðu að það væri mikilvægt að skoða hvort slík stofnun gæti tekið að sér víðtækara hlutverk um eftirlit til að við getum sundurgreint þetta eins og ég sagði áður í þeim þáttum sem núna eru í félags- og tryggingamálaráðuneytinu sem verður undir sameinuðu ráðuneyti frá og með áramótum.

Það hefur líka komið fram áður að það er val þeirra sem sömdu frumvarpið og þeirrar nefndar sem vann í því í framhaldinu að ákveða að bíða með Lyfjastofnun og lyfjagreiðslunefndina. Það verður niðurstaða sem kemur út úr þeirri vinnu sem sett var í gang á þeim tíma og að sameina þessar tvær stofnanir fyrst.

Varðandi húsnæðismálin er svo sem hægt að hafa mörg orð um þau. Ég þekki málið ekki alveg frá byrjun en það er eins með það, ég hef áður ítrekað að það er í sjálfu sér val heilbrigðisráðuneytisins eins og hér hefur áður komið fram og meðan ég hef fylgst með umræðunni hef ég séð yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu þar sem menn fallast á að menn geti hugsanlega þurft að fara í dýrara húsnæði. Það er þó tekið skýrt fram að þá þurfi að mæta því með öðrum hætti, þ.e. með niðurskurði á rekstrinum, þannig að menn standi þá áætlun sem lögð er fram. Það kemur raunar skýrt fram í greinargerðinni með frumvarpinu að það verði einskiptiskostnaður við sameininguna, að sjálfsögðu, og það kemur líka skýrt fram í greinargerðinni að það er mjög mikilvægt að menn reyni að komast hjá því að leigja áfram húsnæðið á Austurströnd á Seltjarnarnesi þar sem leiguverðið var mjög hátt fyrir fermetrann, 2.124 kr., á sama tíma og tilboðið sem okkur finnst hátt í húsnæði sem hér er verið að tala um að taka á leigu, 1.850 kr. á fermetrann.

Í umræðunni hefur líka komið fram mikilvægi þess að nýtt embætti geti gegnt því hlutverki að annast skráningar, mælingar og eftirlit, sem sagt fylgja tölfræði eftir, og þannig er jafnvel líka hægt að fylgjast með gæðum. Ein af ástæðunum fyrir því að menn eru að sameina þessar stofnanir er að menn geta þá nýtt sér öll samlegðaráhrif og fagþekkingu og sinnt þessum hlutum enn betur en gert er nú. Ég held að það sé mjög mikilvægt almennt í þjónustu á vegum ríkisins að menn hafi betri tölfræðilegar upplýsingar um það sem er að gerast og magn og gæði þeirrar þjónustu sem við erum að veita og um leið eftirlit með þeirri þjónustu sem veitt er af ríkinu.

Í frumvarpinu er óskað eftir að menn skoði hvort hægt sé að vinna það vel og hratt að þessi nýja stofnun geti tekið til starfa um áramót. Ég treysti á að hv. heilbrigðisnefnd vinni vel að því verkefni og að samstaða náist í nefndinni þannig að þetta mál fái góðan framgang.