139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú ekki að ræða mikið um þetta mál en mér rennur blóðið til skyldunnar eftir andsvar hæstv. ráðherra. Þótt svolítið sé liðið á kvöld þá gefast okkur ekki önnur tækifæri til að ræða þessi mál en núna, mörg mál eru uppi og það skiptir afskaplega miklu að við ræðum stefnu í heilbrigðismálum.

Ég vek athygli á ummælum og yfirlýsingum Ríkisendurskoðunar um gerð fjárlaga. Þar kemur skýrt fram að stefnumótun er á hendi ráðherra og hvað Sjúkratryggingar Íslands varðar var sérstaklega sett ofan í við síðasta hæstv. heilbrigðisráðherra. Pólitísk stefnumótun var ekki til staðar og ætlast var til að Sjúkratryggingar Íslands tæki ákvarðanir sem stofnunin hafði ekki heimild til og gat ekki tekið. Það er fullkominn misskilningur, virðulegi forseti, að Sjúkratryggingar Íslands hafi verið eitthvert 2007-fyrirbæri sem var fyrst og fremst sett á laggirnar vegna þess að það voru til svo miklir peningar. Menn voru að hugsa til framtíðar. Þannig var það. Það skiptir engu máli hvort til séu litlir eða miklir peninga, enginn heilbrigðisráðherra á nokkrum tímapunkti mun segja: Ég er búinn að fá allt það sem ég þarf. Það er endalaust hægt að gera betur í heilbrigðismálum.

Sjúkratryggingar Íslands voru settar á laggirnar til að hafa á einum stað alla þá þekkingu sem til staðar var til að kaupa eða semja um heilbrigðisþjónustu. Af hverju? Þótt við tölum afskaplega vel um Landspítalann af því að hann hefur náð gríðarlega miklum árangri, sérstaklega eftir að hann komst undir faglega og fjárhagslega stjórn, þá er staðan mjög ójöfn þegar kemur að því að semja um heilbrigðisþjónustu og semja um fjárlög vegna þess að sérfræðiþekkingin er almennt hjá stofnununum en ekki hjá þeim aðilum sem semja við stofnanirnar. Þess vegna settu menn Sjúkratryggingarnar á laggirnar og samninganefnd heilbrigðisráðherra, aðilana sem sömdu um þetta í ráðuneytinu og sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar Íslands að erlendri fyrirmynd til að vera alvörumótvægi við þá sem samið var við.

Þessi hugmyndafræði kom beint fram í sparnaði, t.d. varðandi augnsteinaaðgerðir. Ef ég man rétt bauðst Landspítalinn til að gera hverja aðgerð á 210 þús. kr. en samið var um 75 þús. kr. á nokkrum stöðum annars staðar eftir útboð. Það var gert til að við gætum fengið meira fyrir minna þrátt fyrir að miklu meiri fjármunir væru þá í gangi en núna.

Ég fer yfir þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að við þurfum á þessari hugsun að halda nú sem aldrei fyrr. Ég brýni hæstv. ráðherra og hv. þingmenn í meiri hlutanum til að skoða þessi mál og skoða sérstaklega reynslu Svía sem menn líta oft til. Við gerðum það svo sannarlega, bæði af því að þeir hafa náð árangri hvað þetta varðar og þeir höfðu líka einstaklega góðan aðgang að færu heilbrigðisstarfsfólki, stjórnendum, m.a. Íslendingi, í fremstu röð.

Þótt ég hafi eingöngu átt gott samstarf við hæstv. heilbrigðisráðherra og vona að svo verði áfram og treysti því að hann sé sanngjarn maður sem fari málefnalega og vel yfir hlutina, þá hef ég áhyggjur af þeim tón sem var sleginn í ræðu hans. Ég hvet hann til að skoða forsendurnar sem lágu þarna að baki, til hvers var farið í þetta verkefni. Það var ekki gert vegna þess að menn áttu svo rosalega mikið af peningum og vissu ekkert hvað þeir áttu að gera við þá. Það er fullkominn misskilningur. Menn gerðu þetta til að nýta fjármunina betur. Í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og í öllum öðrum löndum nýta menn peningana best þegar þeir hafa þekkingu til þess.

Við stígum mörg skref aftur á bak ef við förum í sama horfið og áður, það er ekki nokkur einasti vafi á því. Menn mega ekki blindast af þeirri pólitísku áherslu og pólitísku heift sem var hjá tveim síðustu hæstv. heilbrigðisráðherrum og kom m.a. fram í samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands. Ég ætla ekki að rifja það hér upp þegar hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra ætlaði að losa sig við forstjóra Sjúkratrygginganna, hann sýndi einstaklega mikla samviskusemi og dugnað í starfi. Það var svartur blettur á sögu framkvæmdarvaldsins og slíka hluti megum við ekki láta gerast aftur. Aðalatriðið er að fara vel yfir hvað gert hefur verið annars staðar og af hverju menn fóru í þessa vegferð. Og svo því sé til haga haldið, þá hafði Samfylkingin þessa stefnu, að það minnsta í orði og ég trúi líka í verki og síðast þegar ég vissi hafði hún hana enn þá. Ég trúi ekki öðru en að hún byggist á því að menn skoði málin vel.