139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir spurði um safnliði og vinnulag við skiptingu þeirra. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að 477 millj. kr. verði úthlutað á safnliðum sem Alþingi veitir styrki úr en upphæðin hefur verið skorin niður um 35% frá fyrra ári.

Hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson fylgdi orðum sínum í ræðu í desember eftir með því að skipa vinnuhóp innan fjárlaganefndar til að endurskoða vinnulagið sem hefur verið viðhaft svo árum skiptir. Sú er hér stendur á sæti í þeim vinnuhópi. Snemma á þessu ári hafði vinnuhópurinn komið sér saman um hvað ætti að nota til viðmiðunar við breytt og betra vinnulag, en það er fyrst og fremst það að farið sé betur með opinbert fé og að þarfagreining, aðhald og eftirlit aukist er varðar verkefni er fá úthlutað þessum fjármunum. Það verður gert með því að auka hlutverk lögbundinna sjóða en einnig með öðrum hætti, svo sem með því að auka fjármagn til menningarráða sveitarfélaganna og auka ábyrgð þeirra á úthlutun og eftirliti.

Þetta krefst breytinga á menningarsamningunum við sveitarfélögin og útvíkka þarf starfssvið þeirra. Þá þarf einnig að finna farveg fyrir þau verkefni sem þarna detta á milli hluta og passa ekki fyrir lögbundna sjóði eða menningarráðin.

Það er skemmst frá því að segja að vinnuhópurinn náði ekki að klára störf sín fyrir mitt ár en þá þurfti að liggja fyrir nákvæmlega með hvaða hætti breytingin yrði útfærð eftir samráð við fagnefndir, ráðuneyti o.fl. Vinnan í fagnefndunum er með svipuðum hætti í ár en allir þeir sem sækja um styrk á safnliðum munu fá orðsendingu snemma á næsta ári um það í hverju breytingarnar verða fólgnar og hvernig þeir eiga að haga sér varðandi beiðni um styrk á árinu 2012. Ef þessi áætlun nær fram að ganga er þetta í síðasta skipti sem það vinnulag verður viðhaft sem hv. þingmaður kallar gamaldags fyrirgreiðslufyrirkomulag.