139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í þingsal fer reglulega fram umræða um umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu. Því miður er ég ekki alltaf nógu ánægð með þá umræðu sem fer fram um þetta aðildarferli, hvort sem er í þingsal, fjölmiðlum eða almennri umræðu. Sú umræða sem jafnan fer fram um málið í þingsal finnst mér góðra gjalda verð en ég tel hana ekki nægilega upplýsandi og hún verður auðvitað aldrei talin hlutlaus. Ég verð að segja að mig þyrstir í upplýsingar um þetta aðildarferli, upplýsingar sem ég get nálgast hjá óháðum aðila, og ég veit að ég tala fyrir munn margra þegar ég segi að aðildarferlið sé alls ekki nógu gagnsætt.

Í nefndaráliti frá meiri hluta utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur skýrt fram að öll upplýsingamiðlun til almennings, fjölmiðla, félagasamtaka og alþjóðasamfélagsins eigi að vera í föstum skorðum og einkennast af fagmennsku og hlutlægni. Í nefndarálitinu segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Veruleg áhersla hefur verið lögð á kynningarmál meðal ýmissa ríkja sem sótt hafa um aðild á undanförnum árum og áratugum. Nær þetta ekki einvörðungu til kynningar í tengslum við lokaskref ferlisins (þjóðaratkvæði) heldur ekki síður meðan á aðildarviðræðum stendur. Þetta atriði telur meiri hlutinn afar mikilvægt, þ.e. að upplýsa almenning um möguleg áhrif aðildar að ESB og um gang aðildarviðræðna.“

Í þessu skyni lagði meiri hluti utanríkismálanefndar til að stjórnvöld kæmu á fót sérstökum óháðum hópi sem bæri ábyrgð á upplýsingamiðlun almennt og leitaði eftir samstarfi við háskólasamfélagið á breiðum grunni. Nú mundi ég vilja fá svör frá hv. formanni utanríkismálanefndar um hvað þessu starfi líði og hvenær við megum vænta þess að óháð upplýsingaveita um umsóknarferlið hefji störf.