139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Soffíu Sigurðardóttur fyrir að vekja máls á þessu atriði. Það er rétt sem hún segir og vísar m.a. í nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar frá 2009 þegar fjallað var um umsóknina um aðild að Evrópusambandinu að í því nefndaráliti er mikil áhersla lögð á upplýsingamálin, að ferlið sé gagnsætt og að allir geti fylgst með því frá degi til dags, nánast.

Nú er ljóst að upplýsingamiðlun verður einkum og sér í lagi í þremur hlutum, í fyrsta lagi upplýsingamiðlun sem samninganefnd Íslands við Evrópusambandið mun sjálf veita um sína vinnu. Í öðru lagi verða upplýsingar sem baráttusamtök, ýmist með eða á móti aðild að Evrópusambandinu, munu á sínum forsendum koma á framfæri en síðan er mikilvægt að það verði miðlæg einhvers konar hlutlaus upplýsingagjöf. Um þetta er fjallað í nefndaráliti meiri hlutans.

Utanríkismálanefnd ákvað að setja á laggirnar sérstakan starfshóp til að fjalla um upplýsingamiðlunarmálið og utanríkismálanefnd hefur nú fengið í hendur hugmyndir frá þessum hópi um stofnun sérstakrar upplýsingaveitu Alþingis um Evrópusambandið þar sem markmiðið á að vera hlutlæg og fagleg upplýsingagjöf byggð á staðreyndum um löggjöf, stefnu og áætlanir Evrópusambandsins, um stofnanir þess, um aðildarríki þess og afstöðu þeirra til einstakra málaflokka og að þarna verði veitt skilvirk og ókeypis þjónusta við kjósendur um allt land. Það er lögð áhersla á að þarna verði ákveðin starfsemi með nokkrum starfsmönnum en til viðbótar við þetta er lagt til að veittir verði styrkir til fræðslu- og útgáfumála vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB. Í umsögn meiri hluta utanríkismálanefndar til fjárlaganefndar sem afgreidd var á fundi í morgun var einmitt gert ráð fyrir því að setja fjármagn til þessara þátta í fjárlögum næsta árs, um 65 millj. kr. samanlagt sem gerð er tillaga um að verði teknir af öðrum liðum utanríkisráðuneytisins, en þetta er í (Forseti hringir.) þessum farvegi. Utanríkismálanefnd hefur ekki beinlínis fjallað um þessar tillögur en mun gera það mjög fljótlega og þá mun það skýrast með hvaða hætti þessu verður endanlega fyrir komið.