139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það sætir tíðindum að Icesave-málið skuli vera komið í almenna umræðu, ég tala ekki um að það sé orðið tilefni til sérstakra kynningarfunda stjórnvalda með hagsmunaaðilum úti í bæ. En það er ekki verið að ræða það á þinginu, það er t.d. ekki verið að ræða það og kynna stöðu þess fyrir utanríkismálanefnd. Ekki eitt sinn hefur málið verið kynnt fyrir utanríkismálanefnd á þessu þingi.

Hingað kom upp hv. þm. Magnús Orri Schram, sem hefur verið mikill talsmaður þess að gengið yrði frá þessu máli, og margt sagt sem er afar athyglisvert að skoða eftir á að hyggja þó að hann vilji helst líta fram veginn. Þannig var andstaða okkar við Icesave-málið í hans huga lýðskrum. Það er ekkert öðruvísi. Þeir sem sögðu rangt að ganga að afarkostum Breta og Hollendinga á sínum tíma voru lýðskrumarar að mati hv. þingmanns.

Nú hefur samninganefndin verið að störfum. Vonandi mun það starf leiða til mun betri og sanngjarnari niðurstöðu í málinu en þingið ákvað að afgreiða undir lok síðasta árs. Við skulum vonast til þess. Við erum auðvitað öll að reyna að vinna hér gagn en þegar við kölluðum eftir samstöðu um lausn Icesave-deilunnar á síðasta ári vorum við uppnefnd lýðskrumarar af stjórnarliðum.

Við skulum vonast til þess að umræðan um þetta mál geti verið á hærra plani og að þingið rísi undir þeirri kröfu þjóðarinnar að standa sameinað, heilt með íslenskum hagsmunum gegn ásælni og ásókn þeirra sem að okkur hafa sótt í þessu máli. Um það hefur Icesave-málið snúist frá upphafi, að það væri í samningaviðræðum, að það ætti að leiða fram lausn sem væri samboðin fullvalda þjóð.