139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hvað er það sem hv. þm. Magnús Orri Schram er að fara fram á með ræðu sinni? Er hann að hvetja ríkisstjórnina, sem hann styður sjálfur, til að ganga frá samningi við Breta og Hollendinga? Er hann að fara fram á að þeir verði í kjölfarið samþykktir af þinginu? Það er ekki hægt að skilja orð hans með öðrum hætti. Það er hlutverk réttkjörinnar ríkisstjórnar að ganga til samninga við önnur ríki enda hefur hún tryggan meiri hluta á bak við sig svo að hv. þingmaður ætti að beina orðum sínum til hæstv. forsætisráðherra.

Fréttir hafa borist af því að aðilum úti í bæ hafi verið kynnt samningskjör sem séu mun hagfelldari en þau sem ríkisstjórn hv. þingmanns skrifaði í tvígang undir og hv. þingmaður hvatti eindregið til að yrðu samþykkt enda blasti ísöld við Íslandi ella. Það var ekkert annað, það voru engin smáorð. Sem betur fer hafnaði forsetinn þeim samningum, eftir mikla baráttu stjórnarandstöðunnar á þingi og fleiri, og þjóðin sjálf hafnaði síðan þessum samningskjörum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég spyr: Hefur hv. þingmaður fengið kynningu á þeim samningum sem nú eru kynntir út um allan bæ? Treysta menn sér til að kveða upp úr um það í hverju þessir samningar felast án þess að hafa séð þá? Höfum við ekki gert nóg af því hingað til? Hvað finnst hv. þingmönnum um það yfirleitt að nú séu aðilar úti um allan bæ að ræða kjör á Icesave-samningum en ekki þingið? Fyndist hv. þingmönnum ekki rétt að vita nákvæmlega hvað hér er á ferðinni áður en menn samþykkja niðurstöðuna eins og hv. þingmaður nánast gerði áðan?

Hæstv. forseti. Væri ekki réttara að hv. þingnefndum, sem fóru með þetta mál á síðasta þingi, sé sýnd sú lágmarksvirðing að fá upplýsingar um það hvað er á seyði í kýrhausnum áður en forstjórar úti í bæ eru farnir að tjá sig í fjölmiðlum um málið?