139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Við hv. þm. Magnús Orra Schram vil ég segja að auðvitað er Icesave-málið skaðlegt og auðvitað vildum við öll vera án þess. En nú þegar forsvarsmaður fyrirtækis, sem því miður hefur ákveðið að skrá sig úr Kauphöllinni, lýsir því yfir að Icesave-málið sé skaðlegt fyrir fyrirtækin í landinu hleypur hv. þingmaður til. Ég heyri ekki betur en hann vilji undirrita nýjan Icesave-samning sem sagður er liggja á borðinu en ég hef reyndar ekki lesið ekki frekar en hv. þingmaður sjálfur. Ég vil hins vegar biðja hv. þingmann um að hafa sig hægan í málinu, m.a. vegna forsögu sinnar, því hann hefur viljað samþykkja allar útgáfur þeirra Icesave-samninga sem Bretar hafa veifað framan í ríkisstjórn Íslands, m.a. þann síðasta sem 98% þjóðarinnar höfnuðu vegna baráttu stjórnarandstöðunnar, vegna aðgerða forsetans og vegna samstöðu þjóðarinnar. Guð hjálpi okkur ef hv. þingmaður hefði þá náð fram vilja sínum og ríkisstjórnin dansað með honum í því. Hvernig væri staðan þá?

Þó að Icesave-málið kunni vissulega að vera slæmt fyrir fyrirtækin þá er það fyrst og fremst slæmt fyrir íslenska skattgreiðendur, fólkið í landinu, og því verður ekki lokið nema það sé verjandi fyrir þjóðina. Ég vil biðja hv. þingmann og menn aðra að anda með nefinu í þessu máli. Tafir þess hafa sparað almenningi tugi ef ekki hundruð milljarða kr. og það munar um það á krepputímum. (Gripið fram í: En atvinnumálin?) Og ég ætla að biðja forsvarsmenn fyrirtækjanna um að láta ekki hæstv. forsætisráðherra misnota sig í pólitískum tilgangi.

Ég vil síðan spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram: Er ekki ríkisstjórn í landinu? (Forseti hringir.) Ef fyrir liggur svona frábær samningur til lykta á Icesave-málinu, og ef tilboðið er svo gott, (Forseti hringir.) af hverju leggur ríkisstjórnin þann samning ekki fyrir þingið (Forseti hringir.) ef hún hefur meiri hluta á Alþingi?