139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

[14:41]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Ég skal byrja á því að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín í lokaorðum. Nei, það er ekki stefnubreytingar að vænta við ráðherraskiptin. Forveri minn í starfi hélt afar vel á málum að mínum dómi við erfiðar aðstæður og það eru þær sem við megum náttúrlega ekki gleyma.

Ég hef áður staðið í ræðustól og lýst áhyggjum yfir fjárframlögum til löggæslunnar í landinu. Staðreyndin er hins vegar sú að á Íslandi hefur orðið efnahagshrun. Í þessu efnahagshruni hafa tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga hrunið. Við þær aðstæður þurfum við að draga saman, einnig í löggæslunni, einnig hjá lögreglunni. Auðvitað er það áhyggjuefni, við þurfum að vanda okkur í þeim efnum og gæta að afleiðingum gjörða okkar. Það var vikið að mun sem kann að vera á störfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar í landinu. Það er stigsmunur og munur á þessum störfum en þó held ég að ekki eigi að gera of mikið úr honum. (Gripið fram í: Nú?)

Ég átti mjög góðan fund með lögreglumönnum á Suðurlandi í gær þar sem þeir lýstu starfsaðstæðum og hvernig samdráttur í útgjöldum til löggæslunnar hefði áhrif á störf þeirra. Það er ekki síður ástæða til að hlusta á það en áhyggjur manna á höfuðborgarsvæðinu. Ég tek líka undir með hv. fyrirspyrjanda um að við megum aldrei gleyma því að lögreglumenn eru að sjálfsögðu einstaklingar eins og við öll hin með fjölskyldur og búsorgir og eru undir álagi líka sem einstaklingar. Í ofanálag koma síðan skyldur sem tengjast hruninu og við höfum orðið svo áþreifanlega vör við í þessu húsi. Þessu fylgir líka mjög mikið álag.

Ég vil segja það almennt um lögreglustarfið að það er mjög vandasamt starf og það er mjög mikils metið í samfélaginu. Virðing fyrir störfum lögreglunnar sprettur ekki af sjálfu sér, heldur á hún rætur að rekja til þess að menn vinni störf sín af alúð og árvekni. Ég held að við lítum öll svo á að íslensku lögreglunni hafi tekist vel til hvað þetta snertir.

Ég vil nefna það að reynt hefur verið að bregðast við auknu álagi á lögregluna innan löggæslunnar með margvíslegum stuðningi. Á hitt ber líka að líta að með markvissari vinnubrögðum í vaktafyrirkomulagi í öllum samskiptum eykst líka álagið á lögregluna. Með breyttu vaktafyrirkomulagi og breyttum stjórnunarháttum beinum við starfskröftum einstaklinganna inn í álagspunkta í ríkari mæli þannig að álagið fer einnig af þeim sökum vaxandi.

Það er staðreynd að fjárframlög til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið skorið umtalsvert niður á undanförnum árum, ekki bara á þessu ári og ekki einvörðungu á komandi fjárlagaári heldur á undanförnum árum. Frá 2007 reiknast okkur til að niðurskurðurinn nemi um 380 millj. kr. Það eru 22 millj. kr. á árinu 2008, 155 millj. kr. 2009 og 205 millj. kr. á árinu 2010. Niðurskurðurinn á komandi ári nemur 5,4% sem jafngildir 170 millj. kr. Er þetta áhyggjuefni? Já. Er íslenska efnahagshrunið áhyggjuefni? Já. Þarf að bregðast við því? Já, að sjálfsögðu þurfum við að gera það. Þá segi ég þetta: Við reynum að forgangsraða eftir mætti, við reynum að ráðast í skipulagsbreytingar sem eru líklegar til að við nýtum fjármunina á hagkvæmari og markvissari hátt (Forseti hringir.) en ella. Það er þetta sem við erum að gera og ég vek athygli á því að innan löggæslukerfisins er niðurskurðurinn til löggæslunnar (Forseti hringir.) almennt minni en til almennra stjórnsýslustofnana. Þar er hann mun meiri en þessu nemur.