139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

[14:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mikið álag á lögreglumönnum undanfarið, ekki síst höfuðborgarsvæðisins. Lögreglan stendur sig almennt með einstakri prýði í erfiðum störfum sínum og mér finnst sérstaklega vert að minnast á störf þeirra sem hafa tengst miklum og stórum mótmælum undanfarið með vissu millibili. Það eru aðstæður sem má sem betur fer segja að lögreglulið okkar hafi ekki átt að venjast. Því má kannski segja að afleiðingar hrunsins hafi komið niður á lögreglumönnum, ekki bara eins og okkur öllum hinum í erfiðari efnahagsaðstæðum heldur hefur það gert störf þeirra mun erfiðari en þau voru áður. Ég held að ég tali fyrir munn allra þegar ég segi að þeir hafi staðist þetta álag á höfuðborgarsvæðinu af mikilli prýði.

Það varð mikil breyting þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var sameinuð árið 2007. Ég held af hyggjuviti mínu og þykist reyndar einnig minnast þess að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hafi skýrt frá því á fundi í allsherjarnefnd í fyrravetur að þessi skipulagsbreyting hafi gert það að verkum að auðveldara hafi verið að mæta þeim niðurskurði sem hefur verið á lögreglunni. Eins og hæstv. ráðherra minntist á kemur hann til vegna þess að hér þarf að skera allt niður. Ég vek athygli á því að það á að lækka rekstrargjöld lögreglustjóraembættisins í Reykjavík um 2,2% á næsta ári. Það er þrátt fyrir allt minna en gerist annars staðar en þó er vont (Forseti hringir.) að þurfa að gera það.