139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

[14:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég þakka þessar umræður. Mig langar fyrst og fremst að vekja athygli á skorti á verkfallsrétti hjá lögreglunni, hve lengi samningar þeirra hafa verið lausir og hvað það er erfitt fyrir stéttir eins og lögreglumenn, slökkviliðsmenn og aðra mikilvæga starfsmenn að hafa ekki verkfallsrétt ef í harðbakkann slær. Það hlýtur að vera álag og mikil óvissa ofan á allt hitt að hafa ekki launakjör sín á hreinu.

Þá er annað sem mig langar til að vekja athygli á, þeirri staðreynd að ef lögreglumaður verður gjaldþrota eins og mjög margir Íslendingar eru að ganga í gegnum núna fær sá hinn sami ekki að halda starfinu sínu. Þetta er nokkuð sem mér þætti vert að skoða í ljósi þeirrar stöðu sem við erum í sem þjóð. Það er mjög ósanngjarnt.

Þá langar mig líka að benda á að rétt eins og lögreglumenn sem flokkast undir löggæslu eru aðrir liðir sem flokkast undir grunnstoðir, eins og heilbrigðismál og menntamál. Það er mjög mikilvægt að þessar grunnstoðir samfélagsins hrynji ekki undan okkur og því hvet ég til þess að róið verði að því öllum árum að tryggja að ekki verði vegið svo hart að grunnstoðunum, þessum þrem sem ég talaði um núna, í þeim fjárlögum sem nú er verið að fjalla um að þær hreinlega brotni undan okkur.