139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

[14:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem er afar mikilvæg. Í mínum huga er það verkefni ríkisstjórnarinnar að styrkja lögregluna og styðja við bakið á henni en því miður ber fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þess merki að það ætli hæstv. ríkisstjórn ekki að gera. Löggæslan er grunnþjónusta sem verður að vera í lagi, grunnþjónusta sem byggir á því að tryggja öryggi borgaranna. Hún verður að vera í forgangi en annað að víkja, jafnvel þótt hér hafi verið kreppa. Við horfum upp á að þessi ríkisstjórn telur sig hafa fjármuni til að setja á fót nýjar stofnanir sem spretta upp eins og gorkúlur. Gríðarlegum fjármunum er eytt í aðildarumsókn að Evrópusambandinu, hér eru haldnir fundir sem kosta 100 millj. kr. fyrir einn dag o.s.frv. en menn telja sig ekki hafa fjármuni til að styrkja og efla lögregluna. Lögreglan hefur árum saman kallað eftir því að fjölgað yrði í starfsliði hennar og starfsöryggi og starfsumhverfi lögreglumanna bætt.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að störf lögreglumanna eru rosalega erfið og starfsumhverfið alltaf að harðna með skipulegri glæpastarfsemi og alls kyns ómennsku sem því miður veður uppi í samfélaginu. Álagið er gríðarlega mikið, svo mikið reyndar að lífaldur lögreglumanna er lægri en flestra annarra stétta. Allt er þetta í býttum fyrir tiltölulega lág laun. Þeir sem hér sitja (Forseti hringir.) og hafa upplifað árásirnar á Alþingi og það álag sem hefur verið á lögreglumönnum í tengslum við þau mótmæli ættu manna helst að hafa skilning á því (Forseti hringir.) að aðgerða er þörf og ég vona að hæstv. dómsmálaráðherra lýsi því hér yfir að hann ætli að breyta stefnunni.