139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:08]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara. Frumvarp það sem hér er lagt fram er samið í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní og 16. september sl. þar sem tekist var á um gildi gengistryggingar á lánum fyrir Hæstarétti.

Eins og kunnugt er varð það niðurstaða Hæstaréttar í þessum málum að slík trygging stæðist ekki og jafnframt fólst í dómnum 16. september ákvörðun um með hvaða hætti skyldi þá reikna vexti í stað hinnar ólögmætu gengistryggingar og veitt leiðsögn um hvernig uppgjöri skyldi háttað. Í kjölfar þessa dóms varð það niðurstaða ráðuneytisins að rétt væri að leggja fram löggjöf af þeim toga sem hér er nú lögð fram til að draga úr þeirri óvissu sem óhjákvæmilega leiddi af niðurstöðu Hæstaréttar. Það má segja að í Hæstarétti hafi verið veitt leiðsögn um hvernig fara skyldi með bílalán í tilteknu tilviki en að öðru leyti blasir við að vegna almennra réttarfarsreglna um málsforræði muni þurfa býsna mörg dómsmál til að leysa úr eftirstandandi ágreiningi um aðra bílasamninga og auðvitað líka um gildi gengistryggingar í húsnæðislánum.

Það var mat ráðuneytisins og ríkisstjórnar að ekki væri ásættanlegt að viðhalda óvissu um umfang skulda heimila sem nemur gengistryggðum skuldbindingum og mikilvægt með löggjöf að skýra réttarstöðuna og mæla með sanngjörnum hætti fyrir um meðferð allra gengislána með sama hætti og fólst í dómi Hæstaréttar. Það er afskaplega erfitt að rökstyðja að það sé eðlilegt eða réttlætanlegt að fólk í fullkomlega sambærilegri stöðu, sem býr jafnvel hlið við hlið og tók algjörlega sambærilegt lán, sé í grundvallaratriðum í ólíkri stöðu eftir orðalagi þess samnings sem að baki láninu liggur. En sú niðurstaða er vissulega möguleg nú að óvissa sé uppi um hvort gengistryggingin er skuldbindandi í einstökum samningum og að orðalag samninga geti þar ráðið en ekki nein efnisrök að öðru leyti.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir að veita öllum einstaklingum með bílalán og öllum einstaklingum með gengistryggð íbúðalán sama rétt og fólst í dómi Hæstaréttar. Alls er um að ræða 37 þús. heimili, um þriðjung heimila í landinu, og við gerum ráð fyrir því að í kjölfar löggjafar af þessum toga muni skuldir heimilanna lækka um nærri 50 milljarða kr., að meðaltali um nærri 1,5 millj. kr. á heimili með gengisbundið lán.

Markmið frumvarpsins er sem fyrr segir að tryggja sanngirni, þ.e. að allir lántakendur fái þann ávinning sem dómar Hæstaréttar boða, óháð orðalagi lánasamnings í hverju og einu tilviki. Jafnframt er kveðið á um skilvirkar uppgjörsreglur og lagt til að lánastofnunum verði veittur stuttur frestur til að endurreikna gengisbundin lán.

Ég mun nú fara stuttlega yfir helstu atriði frumvarpsins. Í því er kveðið á um að gengisbundin húsnæðislán einstaklinga og öll bílalán verði talin falla í sama flokk óháð orðalagi samninga í hverju og einu tilviki. Allir lántakendur fá því lækkun eftirstöðva lána sinna til samræmis við dóm Hæstaréttar frá 16. september sl. Í tilviki bílalána er ekki um neinn afmörkunarvanda að ræða, en hvað heimilin varðar er farin sú leið að skilgreina réttinn við þau veðlán sem uppfylla skilyrði til vaxtabóta, þ.e. ef þau eru tekin innan þess tímaramma sem áskilinn er í lögum sem forsenda þess að íbúðalán geti talist hæf til vaxtabóta. Til vaxtabóta geta einnig talist endurbótalán sem veitt hafa verið af Íbúðalánasjóði en það er eðlilegt að hugsa hér um jafnræði milli lánastofnana og að öll endurbótalán sem fólk hafi tekið og almennt uppfylla efnisleg skilyrði laga falli undir endurreikninginn þegar að honum kemur.

Það verður heimilt án álags eða vanefndaafleiðinga að greiða upp skuld af ólögmætu gengisbundnu láni. Jafnframt er í frumvarpinu sett regla um uppgjör sem stuðlar að því að allar greiðslur af láni gangi inn á vexti og höfuðstól skuldar og ekki verði heimilað að reikna dráttarvexti eða önnur vanskilaálög af slíkum kröfum við uppgjör. Það verður þannig ekki heimilt fyrir eignarleigufyrirtækin að reikna dráttarvexti á vangreiðslur. Með sama hætti njóta skuldarar greiðslu dráttarvaxta ef þeir hafa greitt dráttarvexti af bílalánum eða húsnæðislánum á undanförnum árum eða missirum og slíkar greiðslur teljast eins og greiðslur af láninu.

Nokkur umræða hefur orðið um uppgjörsreglurnar sem beitt er í frumvarpinu, sérstaklega þá staðreynd að til þess getur komið við endurreikning að sú greiðsla sem kræf var í upphafi sé hærri við endurreikning en greiðsluseðill hljóðaði á um á þeim tíma þó svo að síðar komi til endurgreiðslu. Hægt er að hugsa sér, svo við notum tilbúnar tölur, að fyrirtæki hafi sent út greiðsluseðil vegna gengisbundins láns á árunum 2006 og 2007 upp á 25.000 kr. en við endurreikning nú komi í ljós að ef um íslenskt lán hefði verið að ræða hefði greiðslan sem átt hefði að inna af hendi átt að vera 30.000. Þá er þarna mismunur upp á 5.000 sem ber þá við endurreikning núna vexti. Eðlilega er spurt hvort slíkt sé sanngjarnt. Á móti eru allar endurkröfur á hendur fyrirtækjunum líka vaxtaðar með sama hætti. Því er til að svara að reiknireglan er byggð á ákvörðun Hæstaréttar frá 16. september síðastliðnum og útfærð hér með sama hætti og Hæstiréttur útfærði endurgreiðsluna þá.

Í þeim tilvikum þar sem eigendaskipti hafa orðið og fleiri en einn lántakandi koma að málum er miðað við að sá lántakandi sem varð fyrir tjóni fái það bætt úr hendi viðkomandi lánveitanda. Með því er hagur fyrri lánveitanda tryggður eftir því sem unnt er. Við þekkjum öll dæmi þess að á síðustu missirum hafa bílar sérstaklega gengið kaupum og sölum með miklum afföllum vegna þess að á þeim hafa hvílt mjög há gengistryggð lán og fólk jafnvel þurft að borga með bílunum sínum. Sá sem keypti bíl eða fékk bíl með þeim kjörum hefur í sjálfu sér ekki orðið fyrir neinu tjóni og ekki sanngjarnt að hann njóti ávinningsins af umreikningnum nú heldur frekar sá sem varð fyrir tjóninu og þurfti að selja bílinn frá sér á undirverði.

Ef ábyrgðarmenn hafa greitt af lánum ganga kröfur þeirra fyrir öðrum kröfum og þeir hafa afmarkaðan tíma til þess að setja kröfu sína fram.

Jafnframt er lögð til regla um uppgjör ágreiningsmála ef áhöld eru um hver eigi rétt til endurgreiðslu eða uppgjörs. Með lögunum eru lánastofnunum settir tímafrestir vegna endurútreikninga á ólögmætum gengisbundnum lánum. Fresturinn er 60 dagar að hámarki og jafnframt er kveðið á um að uppgjör skuli fara fram innan 90 daga.

Lántakendur hafa tímabundna heimild til að breyta lánum sínum yfir í gild erlend lán kjósi þeir svo.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að auðvitað er til fólk sem hefur tekjur í erlendum gjaldmiðli og hefur því hag af því að vera með skuldir með sama hætti, í erlendum gjaldmiðli. Hér er því opnað fyrir þann möguleika að lántakendur geti breytt lánunum yfir í gild erlend lán en þá fellur auðvitað jafnframt niður réttur þeirra til sérstakrar leiðréttingar.

Lántakendum húsnæðislána verður boðið að breyta lánum sínum yfir í verðtryggð eða óverðtryggð kjör að eigin vali. Enginn verður þvingaður til að breyta húsnæðisláni sínu en fólki býðst að flytja sig annaðhvort yfir í lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans eða lægstu verðtryggðu vexti Seðlabankans sem síðan sæta endurskoðun eftir fimm ár.

Með frumvarpinu er jafnframt vikið frá almennum tímafrestum til endurupptöku dómsmála hvað varðar gengisbundin lán, enda geta verið fallnir dómar um greiðsluskyldu og allir frestir til endurupptöku þeirra mála liðnir. Því er nauðsynlegt að opna þá fresti og gera mögulegt að rjúfa slíkt réttarástand þannig að fólk geti leitað réttar síns.

Í þeim tilvikum sem lánveitandi hefur leyst til sín bifreið en endurútreikningur sýnir óhagstæða niðurstöðu fyrir lántakanda er gert ráð fyrir sérstakri uppgjörsreglu sem var jafnframt í frumvarpi því sem ég lagði fram sem félagsmálaráðherra hér í vor, um breytingu bílalána. Þar er sem sagt gert ráð fyrir því að skuldari eigi þá kost á að endurgreiða skuldina á þremur árum og að fyrir hverja krónu sem greidd er lækki skuldin um krónu á móti. Jafnframt er að finna í frumvarpinu samsvarandi ákvæði og í frumvarpinu um bílalánin frá í vor um að ekki megi ganga að heimili skuldara vegna eftirstæðra skulda vegna bílalána.

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur verið rakið fjallar frumvarpið að efni sínu um það að veita öllum einstaklingum með bílalán og íbúðalán sama rétt og fólst í dómi Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september.

Að því er varðar aðila í atvinnurekstri breytir frumvarpið ekki í grundvallaratriðum réttarstöðunni. Það eru ýmis sjónarmið sem eru annars konar um aðila í atvinnurekstri heldur en um einstaklinga þegar kemur að gengistryggðum lánum. Aðilar í atvinnurekstri geta fært til kostnaðar í bókhaldi fyrirtækis vaxtagjöld vegna gengistryggðra lána. Fyrirtækjum býðst fremur en einstaklingum að kaupa sér varnir gegn gengisójöfnuði og auðvitað er mjög algengt, sérstaklega í ákveðnum atvinnugreinum, útflutningsgreinum aðallega, að fyrirtæki séu beinlínis með þorra tekna sinna í erlendum gjaldeyri og séu því náttúrlega varin fyrir gengisójöfnuði. Það er því ekki sjálfgefið að sömu sjónarmið eigi við hvað varðar neytendavernd og tillit til lántaka hvað varðar gengistryggð lán fyrirtækja og einstaklinga.

Í frumvarpinu er kveðið á um það að lögaðilum og öðrum aðilum í atvinnurekstri verði almennt heimilað að gera gengistryggða lánasamninga í ljósi þessara aðstæðna og jafnframt kveðið á um að fari svo að lánasamningar teljist ólögmætir, lánasamningar sem lögaðilar eru aðilar að, verði heimilt við endurgreiðslu til þeirra að líta til allra lánaviðskipta milli fjármálafyrirtækisins og viðkomandi lögaðila og draga frá þann ávinning sem lögaðili kann að hafa haft vegna ólögmætis gengisbundins láns. Svo tekið sé dæmi er hægt að hugsa sér tilvik þar sem eignarleigufyrirtæki hefur gert fjölmarga samninga við eitt og sama fyrirtækið um lán til kaupa á bílum eða öðrum rekstrartækjum. Það eru í sjálfu sér engin sérstök sanngirnisrök sem mæla með því að viðsemjandinn geti innleyst hagnað af einum samningi en að hinum viðsemjandanum í þessu heildstæða samningssambandi, þ.e. fjármálafyrirtækinu, sé ekki heimilt að líta til heildarjafnvægisins í samningum aðila á milli, enda engin sérstök efnisrök fyrir því að fyrirtæki í atvinnurekstri geti kosið að innleysa hagnað af ólögmæti í einum samningi en varist kröfu um tillit til þess að viðsemjandinn, fjármálafyrirtækið, hagnist í öðru tilviki.

Til þess að mæta þeim fyrirtækjum, fjölmörgum verðmætaskapandi fyrirtækjum í landinu, sem eru með gengistryggð lán, leggjum við áherslu á það samhliða þessu frumvarpi að hrinda af stokkunum stórfelldu átaki í meðferð skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja en það hefur gengið allt of hægt að leysa úr því í bankakerfinu. Við höfum unnið með Samtökum fjármálafyrirtækja á síðustu vikum sem og Samtökum atvinnulífsins og helstu hagsmunasamtökum í atvinnulífinu að stórfelldu átaki í meðferð skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Fyrir liggja í öllum grunndráttum helstu atriði samkomulags um það. Nú eru þau til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum sem við vonumst til að muni gefa grænt ljós á þetta verkefni fljótlega.

Með því er ætlunin að lítil og meðalstór fyrirtæki, í allt talin á bilinu 5.000–7.000, fái tilboð um úrlausn sinna skuldamála fyrir sumarið og þannig komum við litlum og meðalstórum fyrirtækjum á þurrt mjög hratt og greiðum úr skuldavanda þeirra. Það er nefnilega ekki þannig að gengistryggð lán séu einu vandamálin sem lítil og meðalstór fyrirtæki eru að kljást við í dag. Almennt má segja að vegna minnkandi eftirspurnar, minnkandi tekna og hækkandi lána hafi ójafnvægi skaðað fjöldamörg fyrirtæki. Þess vegna sé mikilvægt að taka með almennum hætti á skuldavandanum, óháð því af hvaða lánategund hann stafar.

Þess vegna er kveðið á um breytingu á lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins þess efnis að sett verði á fót sérstök úrskurðarnefnd um sértæka skuldaaðlögun fyrirtækja til að greiða úr ágreiningi kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Úrskurðarnefndin mun starfa samkvæmt samkomulagi sem við erum með á lokastigi eins og ég rakti milli allra hagsmunasamtaka atvinnulífsins, banka og sparisjóða og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Að síðustu er í frumvarpinu að finna ákvæði sem heimilar efnahags- og viðskiptaráðherra að fela umboðsmanni skuldara að bjóða fólki upp á endurreikning á lánum viðkomandi einstaklinga í því skyni að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækja og tryggja að réttur sé ekki brotinn á fólki.

Virðulegi forseti. Það er að mínu viti mjög mikilvægt að þetta frumvarp fái hér skjótan framgang enda skiptir það miklu máli til þess að leggja grunn að því að við getum að öðru leyti tekið á skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Það er mjög mikilvægt að fá botn í hver skuldastaða heimilanna nákvæmlega er í kjölfar gengislánadómsins. Eina leiðin til að skapa þá vissu fljótt er að kveða á með löggjöf um umbreytingu þorra gengistryggðra lána heimilanna með þeim hætti sem hér er lagt til. Slíkt mun breyta í grundvallaratriðum helstu tölum sem við höfum haldbærar um skuldastöðu heimila og lækka mjög hættuskuldir heimilanna og fækka í þeim hópi sem er mjög veðsettur umfram eignavirði. Í kjölfarið þarf síðan frekari úrvinnslu til að loka því dæmi að öðru leyti. En þetta frumvarp er nauðsynleg forsenda þess að okkur miði áfram í viðureigninni við skuldavanda heimilanna.

Það er líka rétt að hafa í huga að gengistryggð bílalán eru mjög stór hluti af vanda þeirra heimila sem teljast eiga erfitt með að láta enda ná saman og af heimilum í vanda, samkvæmt greiningu Seðlabankans frá því síðasta vor, eru yfir 42% með gengistryggð bílalán. Því er ljóst að umbreyting þessara lána í eðlilegt horf, með lækkun höfuðstólslánanna og minnkandi greiðslubyrði bílalánanna, skiptir mjög miklu máli fyrir afkomu almennings og úrlausn á skuldavanda heimilanna.

Virðulegi forseti. Ég legg svo til að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til efnahags- og skattanefndar.