139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er reiknað með að umtalsverð tapáhætta leggist á fjármálafyrirtæki sem felst í því að við leggjum til að breytt verði samningum sem ekki liggur fyrir dómur um að skuli breyta. Þegar af þeirri ástæðu verðum við auðvitað að sníða okkur þröngan stakk eftir vexti því að annars erum við í sjálfu sér að gera upptækar eignir bankanna án fullnægjandi rökstuðnings. Það er auðvitað þannig að bankakerfið hefur lögmæta hagsmuni af því og ákveðinn rétt til þess að fá að láta dóm ganga um hvern og einn samning.

Sá meðalvegur sem við freistum þess að rata hér er að verja húsnæðisöryggi fólks í þröngum skilningi og taka hinni almennu leiðsögn um bílalánin sem Hæstiréttur er sannarlega búinn að veita og gefa hvoru tveggju almennt gildi. Við teljum það réttlætanlegt gagnvart kröfuhöfum og gagnvart bönkunum vegna þess að meiri hagsmunir en minni eru af því að fá í frumvarpinu og í heildstæðum lögum greitt almennt úr því hvert virði (Forseti hringir.) eignasafnsins nákvæmlega er og hver staðan er án þess að hvert og eitt mál þurfi að fara fyrir dómstóla.