139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mun sem formaður efnahags- og skattanefndar kalla eftir þeim gögnum sem hér hafa verið til umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta greinargerð með málinu um leið og ég vonast eftir góðu samstarfi við vinnslu þess í nefndinni. Það eru auðvitað sterk rök fyrir því að meðhöndla skuldbindingar heimila eins og hæstv. ráðherra leggur til í þessu máli en ég vil nota tækifærið og spyrja hann hvort ekki standi alveg sömu rök til þess að meðhöndla með sama hætti skuldbindingar fyrirtækja, ekki síst kannski í því ljósi að oft og tíðum áttu heimilin val en mörg fyrirtæki áttu ekkert val. Þeim var einfaldlega gert af viðskiptabönkum sínum að endurfjármagna sig í erlendri mynt sem síðan hefur stökkbreyst og skapað gríðarlegan greiðsluvanda fyrir mikinn fjölda fyrirtækja sem varðar mikla almannahagsmuni að forða hratt og vel frá altjóni.