139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til andsvara því held ég að við verðum að horfa til þess hvað getur réttlætt inngrip af hálfu löggjafans. Það er alveg rétt eins og kom fram í andsvörum við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson áðan að við erum auðvitað bundin af ákvæðum stjórnarskrárinnar og eignarréttarvernd kröfuhafanna. Ef við ætlum að hlutast til með löggjöf um verðmæti krafna kröfuhafanna verðum við að hafa fyrir því efnisleg rök.

Við höfum efnisleg rök þegar við getum bent á húsnæðisöryggi fólks og við höfum efnisleg rök þegar við getum bent á afkomuöryggi fjölskyldna. En það er erfiðara að segja að með löggjöf eigi að dæma ógild öll gengistryggð lán fyrirtækja þegar við vitum t.d. að í mörgum tilvikum voru þessi fyrirtæki að taka lán sem hentuðu þeim best og lán sem þau hafa aldrei orðið fyrir tjóni af að borga af. Tökum dæmi, segjum sjávarútvegsfyrirtæki með allar sínar tekjur í erlendum gjaldmiðli og það var kannski með allar sínar tekjur í evrum, það tók lán í evrum, og það hefur bara ekki orðið fyrir neinu tjóni. Ætlum við þá að senda því fyrirtæki í pósti tékka í formi lækkunar á láninu og gera því kleift að taka aftur lán í erlendum gjaldmiðli daginn eftir? Ég held að það sé ekki skynsamleg leið.