139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, þetta er mikið vandamál hversu hægt hefur gengið í meðferð skuldamála fyrirtækjanna. Ég held hins vegar að vegna þeirra stjórnskipunarraka sem ég færði hér fram áðan sé óhjákvæmilegt að við nálgumst fyrirtækin og vinnum úr skuldavanda þeirra með almennum hætti. Fyrir liggur, eins og ég rakti í framsöguræðu minni, samkomulag við hagsmunasamtök í atvinnulífi og við bankana um hraða meðferð þeirra mála. Og það sem meira er, ég hef líka sett fram þau sjónarmið við bæði Fjármálaeftirlit og Samkeppniseftirlit að aðgerðir þeirra verða auðvitað að styðja okkur í því að hvetja til hraðrar umbreytingar á skuldum fyrirtækjanna og gera það erfitt fyrir banka að hanga á lánum sem ekki hefur verið komið í skil en greiða fyrir því svo bankar hafi hag af því að koma lánum í skil og styðja við nákvæmlega þá nauðsynlegu efnahagsuppbyggingu sem hv. þingmaður nefndi. Vegna þess að ef við fáum ekki fyrirtæki sem vita hvað þau skulda og eru tilbúin að takast á við ný verkefni munum við ekki auka atvinnu hér á landi eða koma verkefnum af stað í atvinnulífinu.