139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óttast að ég geti ekki gefið hv. þingmanni fullnægjandi svar í örstuttu andsvari. Fyrir það fyrsta eru þessir 58 milljarðar álitin heildarumfang lánanna sem Fjármálaeftirlitið telur líklegt að gætu fallið miðað við dómafordæmi Hæstaréttar. Að baki tölunnar liggur nánari greining af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Ég var að svara hv. þingmanni í skriflegri fyrirspurn um svigrúm sem ætlað er í bönkunum til að taka á skuldum fyrirtækja. Þessir 58 milljarðar mundu þá dragast frá þeim 1.400 sem þar eru til ráðstöfunar, því þetta er umfram það sem þar er gert ráð fyrir.

Það sem ég á við með keyptum eða raunverulegum gengisvörnum er að ef fyrirtæki hafa allar sínar tekjur í erlendum gjaldmiðli og eru með lán í sama gjaldmiðli þá er það fullkomlega gengisvarið. Það getur annaðhvort gerst vegna þess að þannig hefur það tekjur eða vegna þess að það hefur farið í banka og keypt sér samning til þess að verja sig fyrir gengisáhættu. Í báðum tilvikum hefur fyrirtækið ekki orðið fyrir tjóni af gengisþróuninni og (Forseti hringir.) hefur þar af leiðandi ekki komist í þá stöðu að það séu almannahagsmunir að fara að bæta neitt tjón hjá þeim.