139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[16:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér, frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara, er vissulega mikið að vöxtum og varðar auðvitað þætti sem snúa að heimilunum og varðar mjög mikla hagsmuni þeirra.

Ég hef viljað reyna að nálgast þetta mál með jákvæðum hætti og undirstrika hér vilja minn til þess að þingið tryggi að tekið verði á málum þeirra sem tóku gengistryggð lán og urðu fyrir gríðarlegum búsifjum vegna forsendubrests. Þetta frumvarp er auðvitað framlag ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra til að bregðast við þeirri stöðu sem upp hefur komið og er auðvitað skilgetið afkvæmi dóma Hæstaréttar í málum SP-Fjármögnunar og Lýsingar um ólögmæti gengistryggðra lána og dóma um vaxtakjör hinna ólögmætu lána sem féllu þann 16. júní og 16. september sl.

Frumvarpið er mikið að umfangi og 1. umr. þess getur aldrei orðið annað en nokkuð yfirborðskennd þar til málið hefur verið unnið og vandlega farið yfir það. Það eru auðvitað fjölmörg álitamál sem vakna þegar fram kemur frumvarp sem á að taka á svo stóru viðfangsefni. Það þarf ekki að lesa mikið í greinargerð með frumvarpinu til að átta sig á því að það varðar gríðarlega hagsmuni, tugi og jafnvel hundruð milljarða. Það felur í rauninni í sér eignatilfærslu frá lánveitendum og yfir til lántakenda til þess að reyna að rétta af stöðu þeirra sem upp er komin vegna forsendubrestsins sem varð hér á landi í tengslum við efnahagshrunið. Þegar svona mál koma fram og menn vilja ráðast í slíkar tilfærslur vakna eðlilega upp spurningar um skaðabótaskyldu og ég vék að því í andsvari mínu við hæstv. ráðherra fyrr í umræðunni.

Það segir nefnilega m.a. í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fylgir frumvarpinu að fram hafi komið sú skoðun að óvissa geti verið fyrir hendi um það hvort lögfesting þessa frumvarps muni kalla á skaðabótaskyldu á hendur ríkissjóði, og að frátöldum þeim óvissuþætti og öðrum muni frumvarpið ekki hafa teljandi áhrif á afkomu A-hluta ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum. Þarna er auðvitað skautað mjög hratt yfir risastórt álitamál, þ.e. það hvort samþykkt þessa frumvarps eins og það er lagt fram kunni að baka ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart lánveitendum.

Okkur er kunnugt um að hæstv. ráðherra hefur margoft sagt það bæði í ræðustól þingsins og opinberlega að hann hafi óskað eftir því að fjármálafyrirtækin leggi fram skaðleysisyfirlýsingar eða undirriti yfirlýsingar um það að þau muni ekki höfða mál til þess að innheimta eða tryggja sér bætur vegna þeirra aðgerða sem hér er verið að mæla fyrir. Fjármálafyrirtækin hafa ekki fallist á að undirrita slíkar skaðleysisyfirlýsingar sem bendir til þess að þau séu ekki reiðubúin til að sætta sig við þá niðurstöðu sem fram kemur í þessu frumvarpi.

Við höfum líka orðið vitni að því að fluttar hafa verið fréttir af því að Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem gætir hagsmuna erlendra kröfuhafa, hefur sent harðort, svo ekki sé meira sagt, hótunarbréf til einstaklinga sem sitja í skilanefndum bankanna og hótað þeim persónulegum málsóknum riti þeir undir slíkar skaðleysisyfirlýsingar og afsali þar með fjármálafyrirtækjunum málshöfðunarrétti vegna þess tjóns sem þau kunna að verða fyrir við samþykkt frumvarpsins. Þetta bendir auðvitað til þess að fjármálafyrirtækin séu ekki reiðubúin til að falla frá þeim rétti sem þau kunna hugsanlega að eiga vegna þeirra aðgerða sem hér eru boðaðar.

Það að menn velti því fyrir sér hvort frumvarpið hafi í för með sér skaðabótaskyldu á hendur ríkissjóði er álitamál sem í sjálfu sér er ekki nýtt af nálinni. Þann 20. september sl. var haldið málþing í Háskóla Íslands þar sem Benedikt Bogason, lektor við Háskóla Íslands og kennari í kröfurétti, lýsti þeirri skoðun sinni að stjórnvöld gætu bakað sér skaðabótaábyrgð verði það frumvarp sem við ræðum hér og ætlað er að jafna stöðu þeirra sem hafa tekið gengistryggð lán að lögum, að slíkt gæti bakað ríkissjóði skaðabótaskyldu. Í fyrirlestri sínum varaði lektorinn við slíkri lagasetningu og hvatti til þess að stjórnvöld reyndu að ná samkomulagi við lánafyrirtækin um lausn málsins. Auðvitað hefði það verið æskilegasta niðurstaðan ef menn hefðu getað sest niður og komið sér saman um hvernig með þessi mál ætti að fara. Það hefur enn ekki tekist og eins og ég rakti áðan eru ýmsar vísbendingar um að það muni ekki takast.

Fleiri lögfræðingar hafa sagt skoðun sína á þessum þætti málsins, nú síðast Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður sem gefur þessu frumvarpi ekki háa einkunn í viðtali við Pressuna í dag og segir að ríkið taki á sig skaðabótaábyrgð með því gagnvart lánþegum. Það er að ýmsu að huga í þessu og ég er ekki kominn hingað upp til þess að kveða upp úr um það eða segja mína skoðun á því hvort svo sé. Ég vil bara vekja athygli á því að ýmsar hættur fylgja þessu frumvarpi og þær leggja þær skyldur á þá hv. þingmenn sem fá málið til umfjöllunar að fara yfir öll þau lögfræðiálit sem liggja því til grundvallar og sömuleiðis að fara yfir þau áhættumöt sem gerð hafa verið varðandi efnisinnihald frumvarpsins. Það er nefnilega mjög mikilvægt, komi til þess að höfðað verði skaðabótamál, að þingið sé upplýst um það hvert umfang slíkra mála getur orðið og hverjar heildarkröfurnar gætu verið sem beint yrði að ríkinu.

Hæstv. ráðherra lýsti því yfir í andsvari í dag að slík áhættumöt hefðu verið gerð af hálfu ráðuneytisins, þau verði lögð fram, og það sama gildi um öll lögfræðiálit að öðru leyti. Það er auðvitað sérstakt fagnaðarefni vegna þess að að öðrum kosti verður þingmönnum ómögulegt að meta þennan mikilvæga þátt málsins.

Eins og áður sagði er þetta frumvarp skilgetið afkvæmi þeirra dóma sem fallið hafa í Hæstarétti um gengistryggð lán og vaxtakjör þeirra. Það er hins vegar þannig og ég hef sagt það hér oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ýmis álitamál eru uppi í dómskerfinu sem snúa að þessum lánum og ýmsum skilmálum þeirra sem ágreiningur er um milli aðila og inn í réttarkerfið. Þó svo að hér sé tekið á ákveðnum hluta vandans með þeim hætti sem hæstv. ráðherra leggur til er viðbúið að réttarkerfið allt muni loga í málaferlum vegna ýmissa þátta sem snúa að gengistryggðum lánum og skilmálum þeirra.

Það var af þeirri ástæðu sem ég lagði fram áður en þingið fór í sumarfrí frumvarp til breytinga á lögum um meðferð einkamála sem mælti fyrir um það að mál þar sem deilt er um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við verðlag eða við gengi erlendra gjaldmiðla eða um skilmála slíkra skuldbindinga, svo sem um vexti, skyldu fá skilyrðislausa flýtimeðferð í dómskerfinu. Því miður var ekki fallist á það af hálfu meiri hlutans á þingi. Þetta mál er ekki pólitískt heldur einfaldlega lagt fram til að reyna að hraða svokölluðum hrunmálum í gegnum kerfið og þau fengju skilyrðislausa flýtimeðferð. Á það var ekki fallist af hálfu meiri hlutans hér, því miður. Ég hef mælt fyrir því aftur og málið er hjá hv. allsherjarnefnd en hefur ekki fengið þar efnislega umfjöllun.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir hér fyrir sumarhlé að hún ætlaði að skipa nefnd til þess að fara yfir þessi mál og kynna niðurstöður að hausti en eftir því sem mér skilst hefur sú nefnd aldrei verið skipuð og engin niðurstaða liggur fyrir. En með þessari kerfisbreytingu gæti Hæstiréttur flýtt öllum hrunmálum á sinni dagskrá og afgreitt og leyst úr þeim ágreiningi sem upp kemur vegna ýmissa þátta sem varða gengistryggð lán. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að skora á hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að ýta við hæstv. forsætisráðherra og öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni til þess að tryggja það að þetta mál fái framgang hér og að út í þessa mikilvægu lagabreytingu verði ráðist.

Farið hefur verið yfir ýmsa þætti í umfjöllun þessa máls um útreikning vaxta þeirra lána sem frumvarpið nær til og ég ætla svo sem ekki að lengja þá umræðu. Það eru auðvitað fjölmörg álitamál þar sem hljóta að koma til skoðunar og eftir því sem Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður segir í fyrrnefndu viðtali á Pressunni í dag má búast við að rekin verði dómsmál um endurútreikning lána. Ég hef t.d. velt því fyrir mér hvort það standist að fjármálafyrirtækin ákváðu einhliða að hætta að senda út greiðsluseðla eftir að héraðsdómurinn féll 16. júní, hvort þeim væri stætt á því á meðan þau hugleiddu hvernig þau ættu að bregðast við niðurstöðu þessa dóms um ólögmæti lánanna að krefja lántakendur um vexti af lánunum á því tímabili, hvort sem þau voru vangreidd eða í skilum. Miðað við þá útreikninga sem ég hef séð fæ ég ekki betur séð en að lántakendur hafi þurft að sæta því að greiða vexti á þeim tíma sem fjármögnunarfyrirtækin þurftu að taka sér til að velta því fyrir sér hvernig þau ættu að bregðast við dómnum. Þetta er svona eitt álitamál sem menn hljóta að skoða við meðferð þessa máls.

Síðan eru auðvitað ýmsir agnúar á málinu almennt sem við förum betur yfir, eins og t.d. það af hverju fyrirtækin eru ekki hér undir og lögaðilar. Á því eru ýmsir agnúar. Það eru alls kyns litlir rekstraraðilar sem eru með sinn rekstur í mismunandi rekstrarformi. Ég nefni t.d. bændur, sumir bændur eru með sinn rekstur í hlutafélagaformi en aðrir reka sinn búrekstur á persónulegri kennitölu. Hinir fyrrnefndu gætu ekki að því er mér skilst nýtt sér þau úrræði sem þetta frumvarp býður upp á en sá sem er með sinn rekstur á eigin kennitölu gæti gert það. Það sama má segja t.d. um gröfumanninn sem rekur sína gröfu á eigin kennitölu. Hann fær niðurfellingu en ekki sá sem rekur sína gröfu í einkahlutafélagi, jafnvel þó að (Forseti hringir.) þeir séu að grafa sama skurðinn. Þetta er auðvitað vandamál, agnúar á málinu sem þarf að taka á, og ég vona að hv. þingmenn í þeirri þingnefnd sem mun fjalla um málið muni gera það.