139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[17:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir það hvernig hann fór yfir málið. Hann gerði það samviskusamlega, hirti upp spurningar sem vöknuðu hjá hv. þingmönnum í umræðunni og eftir því sem ég tók eftir sleppti hann engu þar úr.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um orð hans í restina. Þar sagði hann frá undirbúningnum sem við í þinginu vitum ekki nákvæmlega hver er. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að flýta þessari vinnu og eftir því sem hann lýsti því tel ég hann vera á réttri leið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess ef frumvarpið verður samþykkt eins og það er. Segjum sem svo að fyrirtæki hafi tekið erlent lán með þessari gengistryggingu, sumir hafa vonir um að það verði dæmt ólöglegt vegna þess að borgað er með íslenskum krónum og þar fram eftir götunum. Telur hæstv. ráðherra, sérstaklega í ljósi endurskipulagningar sem nú á sér stað, að lánastofnanirnar geti að einhverju leyti sett stólinn fyrir dyr viðkomandi fyrirtækis með því að gera við það nýjan samning sem fellur undir þessi lög og þar af leiðandi fyrirgeri fyrirtækið hugsanlega rétti sínum? Það eru mörg fyrirtæki í þeirri stöðu að þau hafa nánast enga stöðu, ef ég mætti orða það þannig, vegna þess að líf og dauði ræðst af því hvað viðkomandi lánastofnun vill gera. Telur hæstv. ráðherra einhverjar líkur á því að lánastofnanir muni pína fyrirtækin inn í nýja lánasamninga eftir að lögin voru sett, þannig að þau munu þá fyrirgera rétti sínum?