139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[17:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Hann fór reyndar út fyrir efnið undir lok ræðunnar þegar hann kom með stikkorðið Icesave og það kveikti strax í mér því ég hef rætt mikið um Icesave. Hann minntist á viðtal við forstjóra Össurar í morgun sem óskaði eftir því að skrifað yrði fyrirvaralaust undir Icesave og að við ættum að ganga í Evrópusambandið sem ég veit að hæstv. ráðherra er heldur ekki mikið á móti.

Hann nefndi hvorki Evrópusambandið né evruna því að hvort tveggja — sérstaklega stendur evran veikt núna og svo er spurning hvort hún lifir á morgun og hvað þá eftir þessi 10 ár sem það tekur okkur að fá … (Gripið fram í: ... bara með krónuna.) Já, það skyldi nú ekki vera að krónan lifði lengur en evran. Ég tel að Össur þurfi traust fjárfesta í hlutabréfum og traust fjárfesta í lánveitingum, það sé aðalatriðið. Hvernig metur hæstv. ráðherra traust eftir að 60 þúsund Íslendingar hafa tapað öllu sínu í hlutabréf eða því sem þeir fjárfestu í hlutabréfum og fjöldi erlendra fjárfesta töpuðu sömuleiðis á íslenskum hlutabréfum? Lánveitendur hafa tapað hér 6 þús. milljörðum, fjórfaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Telur hæstv. ráðherra að þessir aðilar væru tilbúnir til að fjárfesta aftur á Íslandi um leið og við værum búnir að skrifa undir Icesave? Það er ég ekki viss um.

Svo vil ég benda á að bara vextirnir af Icesave hefðu verið 38 milljarðar 2009 og yfir 40 milljarðar á þessu ári. Við erum að tala um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu upp á 30 milljarða og skattahækkun upp á 10. Bara vextirnir af Icesave hefðu verið meiri á þessu ári en bæði skattahækkanirnar og niðurskurðurinn.