139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[17:28]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sömu skoðunar og forstjóri Össurar. Það hefði borgað sig að ganga frá Icesave-málinu í upphafi árs jafnvel með þeim kjörum sem þá voru í boði. Nú glittir blessunarlega í betri kjör og ég held að það sé rík ábyrgð okkar allra að ljúka málinu vegna þess að þetta hefur tjón í för með sér.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir. Það er ekkert í hendi hvað varðar endurreisn og traust en traust verður ekki endurreist nema menn byrji á að endurreisa það og það gera menn með því að loka málum sem við vitum að valda vandræðum í samskiptum við alþjóðlegan fjármálamarkað. Á öðrum dögum kemur hv. þingmaður og flokksbræður hans og -systur og skamma ríkisstjórnina fyrir að standa í vegi erlendra fjárfestinga. Ekkert hamlar erlendri fjárfestingu eins og sú staðreynd að við erum ekki í sambandi við hinn alþjóðlega fjármálamarkað út af Icesave. Við höfum ekki lokið við málið og það er eins og fleinn í holdi okkar. Það skiptir öllu að koma málinu í eðlilegt form.

Við verðum líka að leggja traustan grunn fyrir endurreisnina. Það er alveg sama með hv. þingmann og aðra sem eru sannfærðir um að íslenska krónan muni lifa miklu lengra og heilbrigðara lífi heldur en evran að þeir geta ekki útskýrt hvernig á að vera hægt að hafa hér krónu án hafta. Krónubisnessinn okkar er rekinn upp á sker og það getur enginn stjórnmálaflokkur sem talar gegn aðild að Evrópusambandinu komið fram með trúverðugan valkost. Það er staðreynd mála. Það getur enginn forustumaður þessara flokka sem tala gegn aðild að Evrópusambandinu sagt: Hvernig á að reka íslenska krónu án hafta? Það er hin augljósa staðreynd og það er staðreynd sem þingheimur verður einhvern tíma að horfast í augu við.