139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

fjölmiðlar.

198. mál
[18:21]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál sem getur haft og mun vafalítið hafa mikla þýðingu í lýðræðissamfélagi okkar á komandi árum. Hér er um að ræða frumvarp sem, ef það nær fram að ganga, verður fyrsta heildstæða löggjöfin um fjölmiðla á Íslandi.

Mikilvægi vandaðrar fjölmiðlunar verður seint ofmetið í lýðræðissamfélögum samtímans. Í samfélagi eins og okkar sem hefur orðið illa fyrir barðinu á efnahagslegum hamförum er hlutverk fjölmiðla enn þýðingarmeira sem vettvangur lýðræðislegrar umræðu, öflugasta tæki almennings til að nálgast upplýsingar um samfélagsleg málefni svo ekki sé minnst á hlut fjölmiðla í sköpun og útbreiðslu íslenskrar menningar.

Markmið þessa frumvarps um fjölmiðla eru háleit eins og hæstv. menntamálaráðherra og aðrir ræðumenn hér hafa farið vel yfir, að stuðla að tjáningarfrelsi, tryggja rétt almennings til upplýsinga, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun, að efla neytendavernd á fjölmiðlamarkaði o.s.frv.

Rannsóknarnefnd Alþingis bendir á í sínu merka verki að fjölmiðlar gegni þríþættu hlutverki í samfélagi okkar þegar kemur að umfjöllun um samfélagsmál: Aðhald gagnvart stjórnvöldum og ráðamönnum, upplýsingaskylda gagnvart almenningi þar sem byggt er á hlutlægum og faglegum upplýsingum, vettvangur borgaranna til að taka þátt í þjóðfélagsumræðu með greinaskrifum, með viðtölum í fjölmiðlum, með innhringingum í þætti ljósvakamiðla, athugasemdum á netmiðlum o.s.frv.

Virðulegi forseti. Eignarhald og sjálfstæði ritstjórna eru lykilhugtök sem rannsóknarnefnd Alþingis bendir á í umfjöllun sinni um þátt fjölmiðla í aðdraganda bankahrunsins. Sjálfsritskoðun er þar hættulegust því að hún er í eðli sínu ógagnsæ og almenningur hefur engin tök á að verjast henni. Sjálfsritskoðun fréttamanna á fréttum af málefnum eigenda fjölmiðlafyrirtækjanna sem borga laun þeirra er vandamál sem verður að huga sérstaklega að og vinna gegn með aðgerðum sem tryggja vernd fréttamanna gagnvart íhlutun yfirboðara sinna, eigenda fjölmiðlafyrirtækjanna. Þess vegna er ákvæðið um ritstjórnarlegt sjálfstæði lykilákvæði í frumvarpinu og ég tel að við eigum ef eitthvað er að styrkja það enn frekar með því að kveða skýrar að orði um þá vernd sem fréttamönnum verði tryggð í nýju lagaumhverfi.

Það hlýtur t.d. að koma sterklega til álita í meðförum þingsins á frumvarpinu að skoða hvort setja eigi sérstakar reglur er reisa skorður við fyrirvaralausum uppsögnum fréttamanna eins og dæmi eru til um í löggjöf annarra landa. Ég tel líka að ræða þurfi hvort það sé nægjanleg vörn fyrir fréttamenn á einstökum fjölmiðlum að það sé á ábyrgð yfirboðara þeirra að setja reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttamanna, að sönnu í samráði við starfsmenn og eftir atvikum starfsmannafélög þeirra. Til dæmis má velta fyrir sér hvort fagfélög fréttamanna þurfi að hafa meira og skýrara hlutverk í þeirri vinnu til að tryggja ákveðna lágmarksvernd fréttamanna sem ekki sé háð túlkun og mati yfirboðara á hverjum fjölmiðli. Þetta eru atriði sem þarf að skoða sérstaklega og verður gert í meðförum menntamálanefndar á málinu.

Virðulegi forseti. Saga fjölmiðla á Íslandi er að mörgu leyti saga pólitískra afskipta allt fram á síðari ár þegar stjórnmálamenn losuðu loks hin formlegu tök á Ríkisútvarpinu en í staðinn ummyndaðist íslenskt samfélag í samfélag undir stjórn fjármálamanna sem réðu lögum og lofum í viðskiptalífinu en í reynd samfélaginu öllu og lögðu sig fram um að eignast fjölmiðla til að efla og verja viðskiptaveldi sín. Fjölmiðlarnir hafa því í ákveðnum skilningi farið úr öskunni í eldinn og því miður eimir enn eftir af þeirri skipan þar sem stjórnmálamenn, reyndar fyrrverandi stjórnmálamenn, og viðskiptajöfrar eru enn fyrirferðarmiklir í stjórn einstakra fjölmiðla á Íslandi. Verkefnið er þó skýrt, að skapa eðlilegt og heilbrigt umhverfi sem gerir fjölmiðlum á Íslandi kleift að rækja lýðræðislegt hlutverk sitt án íhlutunar stjórnmálamanna eða viðskiptavelda.

Hugtökin boðvald og aðlöðun eru áberandi í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis um samskipti fjölmiðla við stjórnmálamenn og viðskiptajöfra. Glíma fjölmiðla við stjórnmálin einkenndist lengi vel af boðvaldi þar sem stjórnmálamenn freistuðu þess að stýra fjölmiðlaumfjöllun sér í hag með boðvaldi að ofan. Fjölmiðlarnir eru í einhverjum skilningi vanir því að fást við þess háttar íhlutun og hafa fyrir margt löngu komið sér upp vörnum sem að stórum hluta hafa haldið nokkuð vel, sérstaklega hin síðari ár. Vandamálið varðandi samskiptin við viðskiptalífið var hins vegar að þau voru miklu lúmskari, meira eins og net sem fjölmiðlamönnum hætti til að flækjast í, því að samhengið var ekki pólitísk íhlutun að ofan heldur oft og tíðum vinsamleg samskipti þar sem óbein hlunnindi, kokteilboð og jafnvel samskipti við gamla kollega af fréttastofunni sem komnir voru á mála sem upplýsingafulltrúar hjá fjármálafyrirtækjum, voru áberandi. Þetta er það sem rannsóknarnefndin kallar aðlöðun, hvernig viðskiptavildin laðaði að sér fjölmiðla og fjölmiðlamenn eins og köngulóin flugur þar til flugan sat föst í netinu og gat sig hvergi hrært. Afleiðingin varð andvaraleysi, skortur á gagnrýninni hugsun og aðhaldi sem hið nýríka fjármálakerfi þurfti svo sárlega á að halda.

Nú höfum við í höndunum fjölmiðlafrumvarp og tækifæri til að læra af reynslunni. Og hvað er það í frumvarpinu sem getur nýst okkur til að skapa heilbrigðara og faglegra fjölmiðlaumhverfi? Í því eru mikilvægar tillögur um gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum. Ábyrgðarreglur eru samræmdar til að styrkja réttarstöðu fjölmiðlamanna og skerpt er á ákvæði um vernd heimildarmanna og ákvæði um rétt einstaklinga og aðila til andsvara sem telja sig hafa beðið tjón af fréttaflutningi og sínu máli hallað. Eiga þau ákvæði ekki einungis við um hefðbundna miðla sem við höfum alist upp við eins og prent- og ljósvakamiðla, heldur sömuleiðis nýju miðlana eins og netmiðlana. Vernd barna gegn auglýsingum og ótilhlýðilegum viðskiptaorðsendingum er aukin og svo má áfram telja.

Eins og fram hefur komið í máli hæstv. menntamálaráðherra er það nýmæli í þessari útgáfu frumvarpsins að lagt er til að skipuð verði nefnd til að gera tillögur um eignarhald á fjölmiðlum og mögulega takmörkun þess. Nefndin skal skipuð fulltrúum allra þingflokka og fær tíma til 1. maí 2011 til að skila tillögum í frumvarpsformi um viðeigandi takmarkanir á eignarhaldi fjölmiðla.

Lagt er til að komið verði á faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem sérskipuð stjórnsýslunefnd, fjölmiðlanefnd, hafi með höndum. Þarna er á ferðinni skýrt samræmi við niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að koma þurfi á slíku eftirliti sem hafi það markmið að tryggja að fjölmiðlar á Íslandi ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni.

Einn af þeim lærdómum sem við drögum af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er mikilvægi þess að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því m.a. að styrkja fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar. Nú verður það að viðurkennast að þröng staða ríkissjóðs setur því vissulega skorður að hrinda í framkvæmd beinum fjárstuðningi við veikburða fjölmiðla t.d. á landsbyggðinni, eins og mætti rökstyðja að full þörf væri fyrir, en það er rétt að nýta tækifærið sem gefst með frumvarpinu til að fara yfir hvernig menn vilja standa að fjárhagslegum stuðningi við fjölmiðla á Íslandi ef menn telja efni vera til þess. Fordæmin eru vissulega til í löndunum í kringum okkur.

Miklar og heitar tilfinningar en ekki síður harðir viðskiptahagsmunir tengjast umræðunni um eignarhald á íslenskum fjölmiðlum og gerðu það í þeim stormi sem brast á í tengslum við fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á miðjum síðasta áratug. En ég vil lýsa því yfir sem formaður menntamálanefndar að ég geng til verksins með fullkomlega opnum huga að skoða hvort tilefni er til að takmarka eignarhald á fjölmiðlamarkaðnum. Ég tel að það séu skýr rök fyrir því að dreifð eignaraðild sé heppilegt fyrirkomulag á íslenskum fjölmiðlamarkaði og líklegust til að viðhalda trúverðugleika fréttaflutnings íslenskra fjölmiðla gagnvart almenningi. Vitanlega er rétt að vega og meta jafnframt þau rök sem borin hafa verið fram í skýrslum fjölmiðlanefnda á síðasta áratug þess efnis að reglur um eignarhald megi ekki vera svo hamlandi að þær kippi í reynd fótunum undan fjölmiðlum á einkamarkaði. Meðalið má auðvitað ekki drepa sjúklinginn. En ég vil að það komi skýrt fram að ég lít á spurninguna um takmörkun eignarhalds sem réttmæta spurningu út frá almannahagsmunum og að við eigum að reyna með yfirveguðum hætti að leiða það mál til farsælla lykta hér í þinginu á næstu mánuðum og þar með hefja okkur yfir það gjörningaveður sem geisaði í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið alræmda fyrir nokkrum árum.

Ég vil árétta að lokum að ég tel að hér sé grundvallarmál á ferðinni fyrir íslenskt samfélag og við eigum að líta svo á að með frumvarpinu gefist okkur dýrmætt tækifæri til að leggja grunn að nýju faglegu umhverfi fjölmiðla á Íslandi sem starfi í þágu almennings og hafi til þess bæði rétt til sjálfstæðis gagnvart eigendum sínum, stjórnvöldum og viðskiptalífi en líka skyldur til upplýsingar, gagnsæis og fagmennsku gagnvart umbjóðendum sínum, almenningi.