139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

nýtt samkomulag um Icesave.

[10:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur verið töluvert í fréttum núna og rætt í þinginu um nýtt samkomulag um Icesave. Hér hefur verið vitnað í forstjóra fyrirtækja á Íslandi, þar á meðal Össurar hf. Það sem hefur gleymst í umræðunni, en hefur gengið mjög vel, er að fjármagnið er erlendis þrátt fyrir þetta tal um Icesave og Össur hefur m.a.s. eitt af fáum fyrirtækjum fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftunum. Það er ekki hægt að tengja þetta algjörlega saman, sýnist mér, fyrir utan það að hinn ágæti forstjóri fyrirtækisins er einn helsti talsmaður Evrópusambandsins.

Frú forseti. Í könnun sem Samtök atvinnulífsins gerðu nefndu forsvarsmenn fyrirtækja ekki Icesave sem eitt af helstu vandamálum fyrir fyrirtækin, heldur voru stjórnvöld þar í 1. sæti. Við fáum hins vegar fréttir af því að það sé verið að gera nýtt samkomulag í Icesave. Það hefur ekki verið rætt í þinginu og ekki komið inn til utanríkismálanefndar.

Mig langar því eðlilega að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er búið að gera nýtt samkomulag um Icesave?

Áður hefur verið sagt í þessum ræðustól að ekkert slíkt samkomulag hafi verið gert en svo hefur það litið dagsins ljós nokkrum dögum síðar. Því spyr ég hvort slíkt samkomulag liggi nú á borðinu. Verður það þá kynnt fyrir þinginu á næstu dögum? Mun utanríkismálanefnd fá að sjá slíkt samkomulag? Við verðum að fá svör við þessu því að enn og aftur erum við að fara inn í aðventuna með þetta mál sem okkar helsta mál og það getur ekki talist eðlilegt, frú forseti, að um mál svo stórt sem þetta sé fjallað í fjölmiðlum. Svo virðist sem það sé unnið í gegnum samtök úti í bæ til að reyna að fá þingmenn til að flýta því hér í gegn. Ef það er rétt verðum við að fá svör við því.

Því bæti ég við spurningu, frú forseti, til hæstv. fjármálaráðherra: Er búið að ræða þetta nýja samkomulag við Samtök atvinnulífsins, ASÍ og fleiri til að þrýsta hér á þingmenn?