139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landeyjahöfn.

[10:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það var tekin um það ákvörðun í ríkisstjórn fyrir nokkrum vikum að verja um 130 millj. kr. til að vinna að sandmokstri í Landeyjahöfn. Þessi kostnaður er umtalsvert meiri en við höfðum áður gert ráð fyrir en að sjálfsögðu ræðst þetta af þáttum sem við ráðum ekki við, náttúruöflunum. Það gaus í Eyjafjallajökli og vindáttir hafa verið aðrar en við eigum að venjast sem hefur haft áhrif á sandburðinn og síðan allar aðstæður við sandmoksturinn.

Við erum staðráðin í því að reyna að vinna okkur út úr þessum erfiðleikum. Við verðum því miður að byggja á líkindareikningi og getgátum en í þessu efni er ekki um annað að ræða en að taka eitt skref í einu og sjá síðan hver framvindan verður. Þetta eru staðreyndir málsins.

Ég hef átt fundi bæði með Vegagerðinni og Siglingamálastofnun undanfarna daga og við erum sammála um að fara varlega í þessum efnum en munum leita allra leiða til að halda höfninni opinni. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda, Landeyjahöfn reyndist gríðarlega mikilvæg samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga meðan hún var starfrækt eins og við ætluðum að yrði, en síðan kom þetta babb í bátinn og við erum einfaldlega að reyna að vinna okkur út úr þessum vanda. Við verðum að taka þarna eitt skref í einu.