139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landeyjahöfn.

[10:51]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna því að það er enginn bilbugur á hæstv. ráðherra hvað varðar notkun á höfninni þó að þessir byrjunarörðugleikar hafi komið upp, þá sérstaklega ef marka má upplýsingar frá Siglingamálastofnun út af eldgosinu í Eyjafjallajökli fyrr á árinu og þeim mikla aurburði sem fram gekk út af þeim hamförum öllum. Í fréttum hafa komið upplýsingar um að færa þurfi ósa Markarfljótsins o.s.frv. og ráðast í ýmsar stórar breytingar til að bæta stöðu hafnarinnar og halda henni opinni og gera okkur þannig kleift að nota hana meira og minna allt árið. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra sérstaklega út í það hvort unnið væri að mati á breytingum og þá að sjálfsögðu auðvitað kostnaði. Hvaða breytingar þarf að ráðast í til að þetta mikla samgöngumannvirki megi nýtast okkur af fullum þunga?