139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

kynning RÚV á frambjóðendum til stjórnlagaþings.

[10:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Það er vissulega rétt að í lögum um RÚV er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið, almannaútvarp, hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að sinna þessum lýðræðislegu skyldum, halda á lofti öllum sjónarmiðum og upplýsa almenning.

Ég hef óskað upplýsinga frá Ríkisútvarpinu um umfjöllun um stjórnlagaþing og vissulega kom fram að það var til að mynda fallið frá því að hafa sérstaka þætti með öllum frambjóðendum. Hins vegar vil ég líka upplýsa, af því að hv. þingmaður nefnir auglýsingatilboðið sem frambjóðendum var gert, að fallið var frá því að selja slíkar auglýsingar. Það var hætt við það og frambjóðendum í staðinn boðin kynning á skjá utan sjónvarpsdagskrár eins og einhverjir hafa hugsanlega orðið varir við sem hafa kveikt á sjónvarpinu fram eftir degi.

Ríkisútvarpið hefur tekið þá afstöðu í raun og veru að kynna fremur stjórnarskrána, viðfangsefni stjórnlagaþingsins, og ég hef fengið nokkurt yfirlit yfir þá umfjöllun. Hún hefur verið veruleg. Í fyrsta lagi hefur á Rás 1 verið veruleg umfjöllun í ýmsum þáttum, Samfélaginu í nærmynd, Víðu og breiðu og auðvitað þáttum Ævars Kjartanssonar og Ágústs Þórs Árnasonar um framtíð lýðræðis. Síðan hefur verið settur upp sérstakur stjórnlagaþingsvefur þar sem fjallað er um bæði stjórnarskrána og stjórnlagaþingið. Það hefur verið mikil umfjöllun í Speglinum, morgunútvarpinu, síðdegisútvarpinu og það er fyrirhuguð talsverð umfjöllun um kosningarnar og stjórnarskrána, bæði í sérstökum þáttum og Silfri Egils.

Menningin verður líka sett í umfjöllun. Mjög merkt tónverk verður flutt núna 19. nóvember, Stjórnarskráin í tónum eftir Karólínu Eiríksdóttur, og síðan skiptir auðvitað máli (Forseti hringir.) að það er líka verið að fjalla um málefni stjórnarskrár.

Ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað hefur Ríkisútvarpið mjög ríkum skyldum að gegna við almenning í landinu.