139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar.

[11:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Spurningar mínar voru í fjórum liðum. Ég spurði ráðherra einnig að því hvort hann hygðist stöðva eða takmarka veiðar eftir að ráðlögðu aflamarki Hafrannsóknastofnunarinnar yrði náð. Því er svarað með sama hætti, það eru engin svör. Ég spurði hvernig þessi ákvörðun samræmdist stefnu ríkisstjórnarinnar um umgengni um auðlindir sjávar. Hann telur að frjálsar veiðar úr þessum stofni geri það þrátt fyrir að hann segi einnig í svari að ef miðað er við nýlega stofnmælingu Hafrannsóknastofnunar séu niðurstöður þær að stofninn sé lítill.

Virðulegi forseti. Ég bar fram einfalda spurningu við ráðherrann áðan og hann sýnir áfram vanvirðingu í málinu. Og framkoma ráðherra gengur ekki. Ég ætla að ítreka þá spurningu sem ég spurði ráðherrann áðan:

Er til lögfræðilegt álit í sjávarútvegsráðuneytinu sem styður ákvörðun sjávarútvegsráðherra? Hefur hann (Forseti hringir.) leitað lögfræðilegrar ráðgjafar eða óskað eftir áliti sem fer gegn þeim álitum sem ég vitnaði til áðan og liggja fyrir? Ég óska eftir því að ráðherrann svari (Forseti hringir.) þessari spurningu með jái eða neii, og ef með jái óska ég eftir að hann leggi það fram til sjávarútvegsnefndar.