139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Mér finnst þessi þróun í þinginu orðin mjög mikið umhugsunarefni. Hér komum við þingmenn stjórnarandstöðunnar trekk í trekk og erum búin að spyrja hæstv. ráðherra, líka í skriflegum fyrirspurnum, þar sem við fáum einfaldlega ekkert svar. Hv. þm. Pétur Blöndal fékk svar frá fjármálaráðuneytinu um daginn sem var ekkert svar. Það sama gildir núna þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er spurður, að jafnvel geimverur hefðu getað svarað betur en hann svaraði hér áðan. Það er umhugsunarefni fyrir þingið hvernig svör við þingmenn stjórnarandstöðunnar fáum af hálfu stjórnarmeirihlutans. Aðhaldið verður lítið sem ekkert ef við fáum ekki stuðning hæstv. forseta þingsins við að fá svör við spurningum okkar.

Ég beini því þess vegna sérstaklega til hæstv. dómsmála- og samgönguráðherra sem verður í utandagskrárumræðu við mig á eftir að svara vinsamlegast spurningum mínum þegar ég ber þær upp á eftir. Ég á ekki von á öðru en að hann komi til með að svara þeim málefnalega.