139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í þessa umræðu sem er mjög mikilvæg og mjög alvarleg. Við höfum rætt þetta á vettvangi formanna þingflokka við hæstv. forseta sem svaraði því til, ef ég má gerast svo frökk að endurtaka samskipti okkar þar, með leyfi forseta, að þetta yrði skoðað. Það yrði skoðað hvernig hæstv. ráðherrar víkja sér ítrekað undan því að svara einföldum spurningum frá hv. þingmönnum. Og hver eru tæki okkar þingmanna til að beita hæstv. ríkisstjórn aðhaldi? Jú, einmitt með því að leggja fram fyrirspurnir. Við verðum þá að geta treyst því að hæstv. ráðherrar svari. Ég vil því ítreka það sem hér hefur komið fram að hæstv. forseti beiti sér í þágu okkar allra, þingmannanna, sem kusu hana (Forseti hringir.) á sínum tíma til að vera forseti okkar allra.