139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta að í forsætisnefnd verði rætt sérstaklega hvernig að þessum málum er staðið. Við samþykktum hér skýrslu þingmannanefndar um breytt vinnubrögð með 63 samhljóða atkvæðum. Þetta mál sem við ræðum í dag er enn eitt dæmið þar sem hæstv. ráðherra svarar spurningum algjörlega út í hött og bara með útúrsnúningum. Þetta er ekki líðandi og þetta gengur ekki lengur.

Ég vil árétta það að fyrir rúmu ári lagði ég fram fyrirspurn til þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og fékk ekkert nema útúrsnúninga eins og þetta svar er hér. Síðan lagði ég sams konar fyrirspurn fyrir núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem hæstv. ráðherra svaraði bara mjög skilmerkilega nákvæmlega sömu spurningunum. Til að losna við uppákomur eins og þessa, að hæstv. ráðherra komist upp með þann dónaskap að svara ekki spurningum en komi síðan upp í ræðustól og hálfpartinn rífi kjaft og tali um að þetta sé einhver ágreiningsmunur og þetta séu þjóðhagslegir hagsmunir að senda ríkissjóði og skattgreiðendum landsins 700 millj. kr. reikning, (Forseti hringir.) er verið ræða um það að hæstv. ráðherrar svari þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar, ekkert annað.